149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[18:06]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að fara að setja hér á langar tölur. Ég ætla aðeins að viðra hugrenningar sem hafa vaknað hér í dag við að hlýða á þær ágætu umræður sem hafa orðið. Ég vil byrja á að taka það strax fram að ég mun ekki gleðja hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson með því að leggjast gegn hækkun á áfengisgjaldi. Ég fagna þeirri hækkun, hvað sem kann að líða hugsanlegum hliðaráhrifum sem það gjald kann að hafa og hægt er að deila um.

Það var ánægjulegt að hlusta á þingmenn tala um borgarlínu. Þar var mikill einhugur og samhljómur í málflutningnum. Þessi samhljómur hefur ríkt í dag varðandi þetta átak í almenningssamgöngum og gefur manni ástæðu til að vera bjartsýnn. Það verður þó að nefna að í fjárlögum sér þess ekki mjög stað að til standi mikið átak í borgarlínu. Þar eru 161 milljón í almenningssamgöngur almennt talað og ekkert sérstaklega um borgarlínu.

Menn hafa deilt hér nokkuð á undan mér og jafnvel af ástríðu um kolefnisgjald og hækkun á því. Ég deili ekki þeirri sýn hv. þm. Ólafs Ísleifssonar að íslenskum heimilum sé stórfelldur háski búinn af kolefnisgjaldi. Ég deili heldur ekki þeirri sýn sem hér hefur verið viðruð, og hefur stundum heyrst áður, að kolefnisgjald sé sérstakur landsbyggðarskattur. Eins og hæstv. fjármálaráðherra dró ágætlega fram í ræðu sinni hafa einmitt komið fram vísbendingar um að fólk hér á höfuðborgarsvæðinu og á þéttbýlum svæðum keyri meira en fólk í dreifðum byggðum og eyði meiru í bensín.

Þetta hefur verið sett fram sem hálfgerður fátækraskattur, að fólk hafi ekki efni á að skipta yfir í rafbíla og þar fram eftir götunum og viðraðar hafa verið ýmsar efasemdir um að þetta borgi sig. Ég deili ekki þeim efasemdum og vil leyfa mér að kalla þetta úrtöluraddir. Við getum ekki talað um okkur sérstaklega sem Íslendinga, höfuðborgarbúa, landsbyggðarfólk eða part af einhverjum sérstökum hópi þegar um þennan vanda er að ræða — við stöndum sem jarðarbúar frammi fyrir mestu ógn sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir. Við þurfum að bregðast við henni. Það er um framtíð jarðarinnar að tefla.

Með fullri virðingu fyrir áhrifum á vísitöluútreikninga finnst mér þar ekki vegast á sams konar hagsmunir. Þar er um að ræða svo ægilegan háska sem mannkyninu er búinn að mér finnst naumast forsvaranlegt að setja það í samhengi við þann almenna vanda sem kann að steðja að okkur í daglegri önn, án þess að ég vilji gera lítið úr honum. Hér eiga úrtölur að mínu mati ekki við.

Maður heyrir stundum líka talað um, og bar hér á góma í dag, lofttegundirnar sem Katla gefur frá sér um þessar mundir. Ég veit ekki alveg hver er punkturinn með því, hvað verið er að segja. Er verið að segja að við eigum bara að gefast upp? Þetta sé hvort sem er svo mikið að við eigum bara að hætta að hugsa um þetta og keyra á olíubílunum okkar syngjandi fram af hengifluginu? Er það það sem er verið að segja? Eða eru þessar fregnir kannski þá einmitt til marks um hitt, að það sé kominn tími til þess að við gerum eitthvað róttækt í málunum alveg undir eins og að þetta eigi að hvetja okkur frekar til dáða?

Ég lýsi yfir vonbrigðum yfir því að hv. þm. Ólafur Ísleifsson skuli tala hér eins og hann sé hrifnari af framlögum til kirkjunnar en mengunarsköttum, án þess að ég vilji endilega að algerlega verði skrúfað fyrir framlög til kirkjunnar. En mér finnst þetta sýna að hv. þingmaður geri sér ekki grein fyrir eða neiti að horfast í augu við hvað er í húfi. Við verðum öll að leggjast á eitt í þessu máli.

Mig langar, áður en ég lýk máli mínu, að tæpa aðeins á útvarpsgjaldinu sem er líka hér til umræðu. Um er að ræða hækkun á útvarpsgjaldi sem fylgir verðlagi og gefur í ríkissjóð 115 milljónir. Nýlega kynnti hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir áform um að draga úr umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og var talað um að það myndi skerða tekjur Ríkisútvarpsins um 560 millj. kr. Í því samhengi, þegar hún var að kynna þessi áform sín, talaði hæstv. ráðherra um að Ríkisútvarpinu yrði bættur skaðinn. Hún segir, með leyfi forseta, í viðtali við Bergljótu Baldursdóttur, fréttamann Ríkisútvarpsins, að mig minnir tólfta þessa mánaðar:

„Við viljum hafa Ríkisútvarpið öflugt og sá tekjumissir sem þeir verða fyrir — við munum finna því nýjan farveg.“

Hún er þó ekki tilbúin, þegar gengið er frekar á hana í viðtalinu, til að útfæra það nákvæmlega hvernig það verði gert.

Við sjáum að það verður sem sé ekki gert með þessum hætti, að Ríkisútvarpinu verði bættur þessi skaði með hækkun útvarpsgjalds.