149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[18:15]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Hann bauð upp í ákveðinn dans, heyrði ég. Ég er nú dansfimur maður og danskortið mitt sjaldan autt. Ég hafði þó eitt laust pláss og langaði að ræða aðeins við hann um Ríkisútvarpið sem ég veit að er okkur báðum hugleikið.

Hv. þingmaður talaði um tekjumissi sem breytingar á reglum um auglýsingar Ríkisútvarpsins hefðu í för með sér og vitnaði í viðtal við hæstv. ráðherra mennta- og menningarmála. Vissulega er hárrétt farið með það að þær tölur stemma ekki. Það er þá ekki leiðin sem á að fara, sem hæstv. menntamálaráðherra vísaði til. Hefur hún þó sagt að þessar tillögur verði svo tilkynntar frekar. Ég bíð þá bara eftir að sjá hverjar þær verða.

En mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í breytinguna hvað varðar auglýsingar í Ríkisútvarpinu. Þarna eru, eins og hv. þingmaður fór með, eitthvað um 500 milljónir, ef ég man þetta rétt, sem áætlað er að tekjur muni skerðast, með minni kostun, takmörkun á auglýsingatímum o.s.frv. Hvernig hugnast hv. þingmanni þær tillögur? Telur hann að þær upphæðir sem Ríkisútvarpið innheimtir í dag í gegnum auglýsingar séu hið fullkomna ástand Ríkisútvarpsins þannig að það séu tekjurnar sem verði að miða við? Ef auglýsingatekjur lækka þarf að hækka (Forseti hringir.) annars staðar? Eða er hann með einhverja aðra skoðun á Ríkisútvarpinu og auglýsingum?