149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[18:18]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. 560 milljónir er talan sem um er rætt í þessu sambandi. Þetta er svolítið snúið og flókið mál og merkilegt. Mín sýn á Ríkisútvarpið er sú að æskilegast væri að við hefðum ríkisútvarp sem væri eins og við þekkjum frá Norðurlöndum sem eru ekki auglýsingadrifin, að við hefðum stofnun sem væri fjármögnuð með öðrum hætti og alls ekki með kostun. Mér finnst ekki fara vel á því að Ríkisútvarpið sé að bjóða dagskrárefni sitt auglýsendum og þar eigi eingöngu að ráða þörf Ríkisútvarpsins til að sinna almenningi og þjóna almannahagsmunum.

Auglýsendur hafa hins vegar margir bent á og margir lagst gegn þessum áformum vegna þess að þeir óttast að þeir missi þarna mjög sterkan aðgang að landsmönnum þar sem Ríkisútvarpið er og fái engan annan aðgang í staðinn, það sé enginn miðill sem jafnist á við Ríkisútvarpið í því að ná til almennings með upplýsingar og auglýsingar. Þeir hafa líka bent á að þarna geti ákveðin þekking í kvikmynda- og auglýsingabransanum verið í uppnámi og að þetta geti haft ýmsar óæskilegar afleiðingar í för með sér í því tilliti.

Varðandi spurningu hv. þingmanns vil ég svara henni svo: Já, ég tel að Ríkisútvarpið þurfi að fá þessa upphæð bætta. (Forseti hringir.) Eins og hefur raunar komið fram í máli hæstv. ráðherra að sé ætlunin að gera.