149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[18:32]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég ítreka það sem ég hóf mál mitt á áðan, því lengri sem málflutningur hv. þingmanns verður því áhugaverðari og sérkennilegri finnst mér hann. Það er allt í lagi að biðjast afsökunar. Við verðum ekkert minna fólk þó að við játum að við höfum kannski hlaupið á okkur. Í mínum huga verðum við jafnvel meira fólk. Kannski hafi okkur hlaupið kapp í kinn, við höfum brugðist of hart við og í leiðinni getum við kannski lagt eitthvað til betri umræðuhefðar í þessum þingsal, hv. þingmaður. Við getum tekið saman höndum um að greina frá staðreyndum, réttum staðreyndum, um hvaða áhrif þau mál hafa sem við erum að fjalla um hér á samfélagið okkar. Hér hefur verið farið yfir það af þó nokkuð mörgum þingmönnum að það er vissulega um að ræða áhrif eins og hv. þm. Ólafur Ísleifsson benti á. Hæstv. fjármálaráðherra kom inn á það í ræðu sinni.

Nefnd hefur verið tala og það eina sem gerðist var að sýnt var fram á að það væri röng tala. En í staðinn fyrir taka ábendingum um það vinsamlega, af því að réttar tölur eru mikilvægar, t.d. í hagfræði, sem ég hélt að hv. þingmaður þekkti töluvert betur en ég, er brugðist við með því að vera snefsinn, gera lítið úr hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni — hann sé nú ekki merkilegur pappír þegar kemur að því að berjast fyrir hagsmunum heimilanna.

Þetta er ekki boðlegur málflutningur, virðulegur forseti. Það veit ekki á gott fyrir þennan þingvetur ef við getum ekki bara rætt málin hér saman, tekið ábendingum hver annars af þeim þroska sem við þingmenn eigum að sýna.