149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[18:36]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér, eins og í rauninni hefur komið fram áður, frumvarp til laga um breytinga á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2019. Hér er m.a. talað um kolefnisgjaldið eins og hv. þingmenn hafa vafalítið tekið eftir.

Það er alveg ljóst í mínum huga að þetta gjald er eitt af þeim tækjum sem stjórnvöld hafa til að beita, og raunar stjórnvöld um alla Vestur-Evrópu, til að reyna að draga úr útblæstri koltvísýrings, minnka notkun jarðefnaeldsneytis sem ég í minni fávisku taldi að væri almenn samstaða um. Það væri það sem þyrfti að gera, a.m.k. á meðan við hefðum ekki annað betra tæki. Með beitingu þess höfum við í raun séð lækkun á útblæstri. Við höfum séð fjölgun á farartækjum sem knúin eru áfram af rafmagni eða öðrum orkugjöfum heldur en kolefni. Þá mætti ætla að við værum á réttri leið.

Það hefur komið fram hér í umræðunni og kom fram áðan hjá þingmönnum að hækkun kolefnisgjaldsins hefði áhrif á vísitölu neysluverðs og auðvitað er það alveg rétt. Við erum með vísitölu neysluverðs. Hún er notuð sem mælikvarði á býsna margt í íslensku samfélagi. Þeim þingmönnum til hugarhægðar sem óttast það að ég muni aldrei eða hafi aldrei tekið upp hanskann eða þykkjuna fyrir þá sem þessi sama vísitala bitnar á, þá beini ég því til þeirra að líta á þingmálaskrá undirritaðs.

Ég er nefnilega einn af þeim þingmönnum sem hafa einmitt flutt þingmál um að taka tiltekna þætti út úr vísitölunni vegna þess að það væri ósanngjarnt að hafa þá þar inni, til að mynda áfengi og tóbak. Hver er sanngirnin í því að þegar einungis á milli 12% og 15%, eftir mælingum, Íslendinga nota tóbak, að öll hin 85% eigi að fá hækkun á lánunum sínum í hvert skipti sem tóbak hækkar? Það er engin sanngirni í því. Ég vona að einhverjum þingmönnum þyki það einhvers virði að aðrir þingmenn, þar með talinn ég, hafi einhvern tímann á ferlinum bent á þessar staðreyndir.

Ég er nefnilega ekki neinn sérstakur verndari vísitölunnar. Ég er enginn sérstakur verndari verðtryggingarinnar og hef aldrei verið. Það vill hins vegar svo til að þetta er það fyrirkomulag sem við erum með. Við höfum verið að ræða fjárlagafrumvarpið og núna ýmsar ráðstafanir vegna fjárlaga. Eins og ég kom inn á í máli mínu áðan þá er það miður að þær ráðstafanir sem við gerum hér hafi áhrif á vísitölu neysluverðs og síðastur manna skal ég gera lítið úr þeim hækkunum sem verða á lánum heimilanna vegna þess. Það er engu að síður afar mikilvægt að við förum rétt með þær staðreyndir og séum ekki að tjakka upp þessar hækkanir í einhverju pólitískum tilgangi eða til þess að ýta undir einhver mál sem við erum að flytja hér á þingi. Það hjálpar málstaðnum ekki neitt.

Það er miklu betra að fara með hlutina eins og þeir eru. Já, vísitala neysluverðs hefur ekki sérstaklega heppileg áhrif á lánin, a.m.k. ekki á verðbólgutímum. Það er þannig. Þetta vitum við. Við höfum sem betur fer byrjað að stíga skref í þá átt að minnka áhrif verðtryggingar á lán og við gætum svo sannarlega gengið lengra en þá er á hitt að líta að meðan við erum föst í þeirri stefnu að allir verði að eiga það húsnæði sem þeir búa í og við viljum þess vegna gera sem flestum kleift að kaupa húsnæði með einhverjum hætti þá er að minnsta kosti sú aðferðafræði sem hefur verið farin í sambandi við verðtrygginguna þó þannig að greiðslubyrði einstaklinga dreifist jafnar og hefur að sumu leyti gert mönnum kleift að tryggja sér húsnæði. Ég vil ekki segja eignast því að það er afskaplega lítil eignamyndun í 80–90% skuldsettri eign sem er með verðtryggðum lánum frá ári til árs nema lánið sé til þeim mun skemmri tíma. Þetta vita hv. þingmenn og við getum farið yfir það.

Ég vil ítreka það að kolefnisgjaldið er nauðsynlegur þáttur í að taka á þeim vanda sem blasir við okkur fram í tímann. Eins og margir þingmenn hafa komið inn á þá eru almenningssamgöngur það einnig. Þess vegna er 3,4 milljarða framlag til almenningssamgangna í fjárlagafrumvarpinu, sem við erum ekki að ræða hér, afar mikilvægt skref. Jú, vissulega getum við sagt að 160 millj. kr. hækkun á milli ára sé ekki sérlega há en engu að síður, við erum að stíga skref. Sveitarfélögin eru að stíga skref og það hefur komið hér fram í dag að Akureyri hefur stigið afar mikilvægt skref í þeim efnum og ber að fagna því.

Við verðum að skoða þessi mál öll í samhengi og ég held að sú vegferð sem við erum að fara í hér, fyrst og fremst að verðbæta hækkanirnar á milli ára en ýta aðeins undir kolefnisgjaldið, sé illskásta leiðin sem við getum farið í því kerfi sem við erum með og þá gerum við það.

Það er hins vegar rétt að halda því til haga, hæstv. fjármálaráðherra, af því ég sagði það líka við umræðu um fjárlög síðast og bandorminn, um bráðabirgðaákvæðið um Framkvæmdasjóð aldraðra, þ.e. að taka hluta af tekjum Framkvæmdasjóðs aldraðra til þess að borga húsaleigu, ég er ekki sérlega hrifinn af því.