149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

aukatekjur ríkissjóðs.

4. mál
[18:48]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði nú ekki að lengja umræðuna að nauðsynjalausu. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að þessi gjöld hafi ekki verið hækkuð, svona flest alla vega, síðan 2010. Ég held að meginástæðan fyrir því að ekki var mikið verið að hækka þessi gjöld á árunum 2010–2013 hafi verið sú að menn vildu halda í við sig að hækka þau gjöld í kerfinu sem gætu haft áhrif á vísitöluna á þeim tíma, mig grunar að menn hafi viljað halda í við sig vegna þess.

En hæstv. ráðherra ræddi síðan um það hvernig væri betra að hafa þetta, hvort betra væri að gera þetta með einhverjum tilteknum fresti. Ég spyr þá hvort í gangi sé vinna í ráðuneyti hans eða hvort áhugi sé á því af hans hálfu að setja í gang vinnu í sínu ráðuneyti til að koma þessum málum í þann skikk að gjöldin verði hækkuð reglubundið þannig að ekki þurfi að koma til, eins og nú er, á 8–10 ára fresti hækkanir sem á pappírunum a.m.k. virðast vera afar háar.