149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

aukatekjur ríkissjóðs.

4. mál
[18:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef hér fyrr í dag mælt fyrir öðru frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2019. Þar vorum við að ræða um kolefnisgjald; almennar verðlagsuppfærslur krónutölugjalda og skatta; gjaldskrár vegna kostnaðar við rekstur Fjármálaeftirlits; greiðslu kostnaðar við rekstur Umboðsmanns skuldara; Framkvæmdasjóðs aldraðra; hjúkrunarrýma, kostnaðarþátttöku heimilismanna, og fleira af þeim toga.

Það er ljóst að við erum mjög víða með í lögum krónutölugjöld sem við erum ýmist almennt að hækka eða, eins og á við í því frumvarpi sem er í umræðunni núna, höfum látið standa óbreytt á milli ára. Ég veit ekki hvað ég á að segja til þess að reyna að svara skýrt og bregðast við spurningu hv. þingmanns, hvort ég telji að skynsamlegt sé að það sé einhver sjálfvirkni í þessu.

Ég held að ég verði að segja alveg eins og er að ég er almennt séð ekkert hrifinn af sjálfvirkum skatta- eða gjaldahækkunum. Það er ekkert sjálfgefið að tilkostnaður ríkisins við að veita ákveðna þjónustu sé sífellt vaxandi. Tökum sem dæmi þinglýsingargjald, bara svo að eitt sé nefnt. Nú erum við hér með í þinginu frumvarp um að rafvæða þinglýsingar, þar sem þinglýsing getur átt sér stað nánast með því að að smella á nokkra takka á lyklaborði. Þetta gjörbreytir eðli þjónustunnar og þar með kostnaði ríkisins við að veita hana. Við þurfum að hafa auga með því hversu mikið hagræði getur verið í því fólgið fyrir ríkið að taka tæknina í lið með sér. Það eitt og sér getur líka haft áhrif á það hvernig maður horfir á gjaldaþróun í einstökum málum.