149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

aukatekjur ríkissjóðs.

4. mál
[18:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda stutta tölu um það sem við höfum reyndar rætt fyrr í dag í umræðu um önnur mál, það sem hv. þm. Þorsteinn Víglundsson kallaði verðbólgusýki á Íslandi.

Ég ætla ekki að setja mig upp á móti þessu máli, alla vega ekki enn sem komið er. Við sjáum til hvað kemur út úr nefnd. En mér finnst áhugavert að þetta sé kallað verðlagsuppfærsla. Það er ekkert endilega rangnefni, þetta er vissulega verðlagsuppfærsla. En þetta er líka hækkun. Það er ofboðslega sterk tilhneiging á Íslandi til þess að segja að það sé ekki verið að hækka eitthvað þegar verið er að verðlagsuppfæra það. En auðvitað er það hækkun. Ef fólk þarf að borga meiri pening fyrir eitthvað er það hærra verð.

Ég man eftir þessu alveg úr æsku þegar fyrirtæki eins og Strætó eða hvað sem það hét þá hækkaði verðið og kallaði það ekki hækkun heldur væri verið að samstilla þetta í takt við verðlag. Þetta er ekkert ný saga. Þetta er reyndar það algengt, og nú man ég ekki hvar ég heyrði þetta, gott ef ekki í hinni sérlega hv. efnahags- og viðskiptanefnd, að helmingur þeirra aðila á Íslandi sem ákvarða verð líta ekki svo á, þegar þeir hækka verð í takt við neysluverðsvísitölu, að þeir séu að hækka verðið. Helmingur þeirra.

Ég skil alveg að stjórnmálamenn sem finna sig knúna til þess að leggja fram eitthvað svona, eins og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, vilji koma að rökstuðningi sínum sem fyrst og kalli því málið verðlagsuppfærslu. Mér finnst ekkert óheiðarlegt við það, ég hefði gert nákvæmlega það sama sjálfur til að koma því strax að hver væru rökin á bak við þessa hækkun. En hækkun er það samt.

Mér finnst að við eigum að tala um þetta sem hækkanir. Tökum verðtryggð húsnæðislán sem hafa nú nokkrum sinnum komið hérna til umræðu vegna þess að þau eru fyrirferðarmikil í íslensku hagkerfi og eru sennilega sá hlutur sem hinn almenni borgari kannast hvað best við í sambandi við það sem fylgir beinlínis vísitölu. Segir fólk að höfuðstóllinn hækki þegar kemur verðbólguskot? Kvartar einhver og segir: Æ, skrambinn, lánið mitt hefur verið leiðrétt til samræmis við vísitölu? Nei, fólk segir: Lánið mitt er búið að hækka. Það er það sem gerist, þótt það sé bundið við vísitölu. Þótt verið sé að hækka lánið í takt við eitthvað annað er samt verið að hækka það.

Ég hef svolítið velt fyrir mér í dag, því að við höfum verið að ræða þessi skyldu málefni, hvernig við getum læknast af þessari svokölluðu verðbólgusýki, sem er það að líta á verðbólgu sem í raun og veru sjálfsagðan hlut, þ.e. líta á hækkanir til samræmis við verðbólgu sem sjálfsagðan hlut öllu heldur. Verðbólga er á ákveðinn hátt sjálfsagður hlutur í mínum huga svo lengi sem hún er ekki mikil. En það að hlutir fylgi verðbólgu er ekki endilega eðlilegt. Kannski stundum, en ekki alltaf.

Nú leggur enginn til svo ég hafi heyrt að gjöld eins og þessi verði beinlínis bundin við vísitölu. Á sínum tíma voru laun bundin við vísitölu og það var afnumið. Ástæðan fyrir því að slíkar aðgerðir eru almennt ekki vinsælar er að þær búa líka til vandamál. Ekki bara þau vandamál sem fylgja verðtryggðum húsnæðislánum heldur líka að það skekkir alla umræðu um það hvers virði hlutirnir séu, tekur í raun burt möguleika fólks á að öðlast verðskyn.

Nú veit ég ekki alveg hversu beinhörð vísindi eru á bak við þetta eða hvernig hægt er að rannsaka þetta vísindalega en ég er alla vega þeirrar trúar að það sé sérstaklega stórt vandamál á Íslandi og hafi sennilega alltaf verið, frá því að við tókum upp peninga yfir höfuð, hversu erfitt það er að mynda sér einhverja tilfinningu fyrir því hvert eðlilegt verð sé fyrir tiltekna vöru og þjónustu. Þetta hefur þau áhrif, alla vega á mig og flesta sem ég hef talað við um þetta, að þegar vara er í boði og maður heyrir verðið þá bara kaupir maður vöruna. Maður er ekkert mikið að velta því fyrir sér hvort þetta sé of mikið eða lítið. Ekki jafn mikið og ég geri sjálfur þegar ég fer til útlanda, þar er í fyrsta lagi miklu stærri markaður og heilbrigðari samkeppni á mörgum sviðum. Á Íslandi venst maður því að það sé engin varanleg tilfinning fyrir verði, t.d. að hamborgari ætti að kosta 1.200 kr. Ef hamborgarinn kostar 1.400 kr. upplifi ég ekki neina tilfinningu við að heyra það. Ég kaupi bara hamborgarann og borða hann. Lít sennilega ekki einu sinni á kvittunina. En ef ég er annars staðar er ég meðvitaðri, 8 dollarar fyrir hamborgara eða eitthvað, ég veit það ekki, og ef ég heyri 10 dollara finnst mér það of mikið, ég finn eitthvað, fæ einhverja tilfinningu fyrir verðinu. Þessa tilfinningu vil ég meina að Íslendingar nái ekki að öðlast vegna þess að þeir eru vanir verðhækkunum, vanir verðbólgu og líta á hana sem eðlilegan hlut. Líta á það sem eðlilegan hlut að hlutirnir hækki í takt við verðbólgu.

Með öðrum orðum: Neytandinn er svolítið sammála þessum helmingi fólks sem hækkar verðið og segist ekki vera að hækka verðið, á ákveðinn hátt.

Mig langaði bara aðeins að tala um þetta, sérstaklega vegna þess að við erum búin að vera að ræða skyld málefni í dag. Þetta frumvarp er bara einkenni þess þegar það er óhjákvæmileg staðreynd að það þarf að uppfæra verð í takt við verðlag með tímanum. Ég er ekki að segja að við eigum endilega að hætta því en ég held að það sé samt hollt að pæla í því hvað gerist ef við hættum því. Hvernig liti það út?

Það var ekki fleira sem ég vildi koma að, virðulegi forseti. Eins og ég segi ætla ég ekki að mynda mér afstöðu til málsins fyrr en í fyrsta lagi þegar það kemur úr nefnd og læt því hér við sitja.