149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er því miður ekkert nýtt við það að haldnar séu heræfingar á Íslandi. Í morgun kom tilkynning á vef utanríkisráðuneytisins um það að núna í október og nóvember fari fram heræfing hér á landi og við Noreg. Ísland tekur þátt í þeirri heræfingu, m.a. vegna þess að við erum aðilar að NATO.

Í mínum huga er ekkert jákvætt við heræfingar. Þær eru þegar allt kemur til alls, sama hvernig reynt er að kynna það, æfing í því hvernig eigi að ná völdum yfir og drepa fólk. Það er einfaldlega rangt að mínu mati og ég vil að við leysum mál sem koma upp á alþjóðavettvangi með öðrum hætti. Við í VG erum þeirrar skoðunar að Íslandi væri betur fyrir komið utan NATO en við höfum því miður verið með minnihlutaskoðun í því máli.

Mig langar að segja að ég tel þó jákvætt hversu ítarleg fréttatilkynningin á vef utanríkisráðuneytisins var í morgun og ég bind vonir við að hún verði til þess að skapa umræðu í samfélaginu um hvað heræfingar eru, til hvers þær séu, af hverju við erum að taka þátt í þeim. Það verði þannig til þess að auka umræðuna í íslensku samfélagi um hernað og hernaðarbandalög og um leið umræðuna um það af hverju Ísland eigi að vera í NATO og af hverju við ættum að segja okkur úr því.