149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætla að leyfa mér að höggva í sama knérunn og hv. þingmaður sem talaði á undan mér, Steinunn Þóra Árnadóttir. Það er að mínu mati orðið þannig að við erum orðin hálffjarlæg því að við séum aðilar að hernaðarbandalagi. Það er orðin staðreynd í huga okkar margra. Þjóðin hefur aldrei fengið að segja skoðun sína á því. Við tökum því sem gefnu að litla Ísland, sem hefur þá stöðu að geta verið í fararbroddi í friðarmálum gegn hernaði og talað röddu friðarumleitana, mannréttinda, er aðili að einhverju hernaðarbandalagi og við erum eiginlega hætt að hugsa um það. (Gripið fram í.) Það er eins og rigning á eftir sólardegi og við hættum að velta því fyrir okkur.

Ég kalla eftir því að við tökum almennilega umræðu um þau mál. Þau eru of sjaldan rædd í samfélaginu og enn sjaldnar í þingsal, þó að við höfum átt ágætar samræður um það á síðasta þingi. Hvað þýðir það að vera í hernaðarbandalagi? Af hverju erum við í hernaðarbandalagi? Af hverju ættum við að vera í hernaðarbandalagi? Af hverju erum við í bandalagi sem felur í sér hernað í öðrum ríkjum og hvað þýðir hernaður? Það þýðir að fólk er drepið. Er það eitthvað sem við sem sitjum hér inni erum tilbúin að vera aðilar að? Sumir eru það, það er þá fínt. Ég er það ekki. Þetta eru samræður sem íslensk þjóð á skilið og við skuldum íslenskri þjóð þær samræður eftir öll árin í Atlantshafsbandalaginu og hvernig því var komið á.

Ég styð það að við ræðum þau mál og vona að fleiri flokkar en Vinstrihreyfingin – grænt framboð taki upp þá góðu stefnu að Íslandi eigi að vera utan hernaðarbandalaga.