149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Arna Lára Jónsdóttir (Sf):

Herra forseti. Í gær var lögð fram tillaga til þingsályktunar af átta þingmönnum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda. Mér brá nokkuð við lesturinn þar sem hlutverk og markmið með nýrri innflytjendastofu er samkvæmt hugmyndum þingmannanna algjörlega sambærilegt lögbundnu hlutverki Fjölmenningarseturs sem er staðsett á Ísafirði. Það er ríkisstofnun sem er undirstofnun velferðarráðuneytisins.

Frá því að Fjölmenningarsetri var komið á fót sem tilraunaverkefni árið 2000 og síðan sem stofnun árið 2012 hefur það mátt þola nokkrar atlögur að verkefnum þess. Fjölmenningarsetur hefur verið fjársvelt í gegnum árin og hefur ekki fengið möguleika til að vaxa eins og nauðsyn ber til. Það er vel hægt að þjónusta íbúa þessa lands frá landsbyggðinni og veita góða þjónustu eins og við höfum mörg dæmi um. Það er ekki náttúrulögmál að allar stofnanir þurfi að vera staðsettar á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega í heimi þar sem stafrænni tækni og þjónustu fleygir fram. Það er sú þjónusta sem við íbúar á landsbyggðinni notum mikið. Fjölmenningarsetur veitir t.d. upplýsingar á netinu og starfrækir upplýsingasíma á átta tungumálum.

Ég skil hins vegar mjög vel þörfina fyrir að opna þjónustuskrifstofu á höfuðborgarsvæðinu þar sem flestir innflytjendur búa. Hvers vegna er ekki skoðað frekar að opna útibú eða skrifstofu frá Fjölmenningarsetri sem væri staðsett í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu í stað þess að búa til enn eitt batteríið? Þetta gengur bara ekki upp í mínum huga.

Ég vona að þingmenn hafi hlaupið á sig og sjái sóma sinn í því að draga þessa tillögu til baka og koma með okkur í þá vegferð að styrkja betur og styðja við Fjölmenningarsetur til að geta sinnt lögbundnum verkefnum sínum og nýjum sem miða að því að þjónusta betur innflytjendur, um það erum við nefnilega sammála.