149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Öll höfum við meðfæddan rétt til lífs. Sá réttur okkar er tryggður í mannréttindasáttmála Evrópu og væri raunar tryggður í stjórnarskrá ef nýja stjórnarskráin okkar hefði tekið gildi, en þann rétt er ekki að finna í núgildandi stjórnarskrá.

Sömuleiðis höfum við rétt til að lifa með mannlegri reisn. Í slíkum réttindum felst ýmislegt. Í réttinum til lífs felst skylda ríkisins að taka ekki líf og líka sú skylda ríkisins að vernda líf og koma í veg fyrir óþarfamannslát. Í mannlegri reisn felst t.d. að ríkisvaldið beiti ekki pyndingum eða annarri vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þetta eru grundvallarréttindi og þau eru ófrávíkjanleg.

Þó stendur eftir sú spurning hvort rétturinn til lífs stangist á við dánaraðstoð, „euthanasia“ eins og það útleggst á ensku, eða rétt fólks til að nýta sér það úrræði, t.d. vegna langvarandi ólæknandi sjúkdóma, ef það kýs að velja sér þá leið að deyja með reisn, hvort rétturinn til lífs og rétturinn til að deyja stangist á.

Þetta er mikilvæg spurning og mikilvæg umræða sem segja mætti að sé á byrjunarstigi á Íslandi. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir lagði fram þingsályktunartillögu sem gerir ráð fyrir því að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að taka saman upplýsingar um dánaraðstoð og þróun lagaramma um hana. Ég vona að hún nái fram að ganga á þessu þingi.

Rétt í lokin vil ég benda á að þessi mikilvæga spurning og umræða fær pláss núna á föstudaginn á málþingi sem haldið verður af Endurmenntun Háskóla Íslands. Þar mun sú sem hér stendur ásamt sérfræðingum í dánaraðstoð frá Hollandi og Belgíu ræða þá mikilvægu spurningu og líka þá mikilvægu spurningu hvort dánaraðstoð og líknandi meðferð séu andstæður eða hvað. Ég hvet alla þingmenn til að taka þátt í því mikilvæga málþingi.