149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í gær, undir liðnum um störf þingsins, hlýddi ég á ræðu hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar þar sem hann fjallaði um septemberfund Norðurlandaráðs sem haldinn var í Nuuk í síðustu viku. Þingmaðurinn gagnrýndi kostnað við þá ferð. Sú sem hér stendur hefur átt sæti í utanríkismálanefnd í fimm ár og gegnir nú embætti formanns Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Í mínum störfum á þeim vettvangi hef ég aldrei orðið vör við óþarfaspreð af hálfu þingsins. Þingmenn fljúga alltaf á almennum farrýmum nema þeir borgi sérstaklega fyrir eitthvað meira, og þá sjálfir náttúrlega. Þingmenn eru almennt ekki látnir gista á fínustu hótelunum. Þeir fundir sem við erum látin sækja eru vel valdir, allt saman auðvitað sjálfsagt.

Af því að dæma get ég ekki betur séð en að starfsfólk og stjórnendur Alþingis leggi sig fram við að sinna utanríkisstarfi okkar á sem hagkvæmastan hátt. Norrænt samstarf er þungamiðja utanríkisstefnu Íslands. Við erum samstiga öðrum Norðurlöndum í helstu áskorunum og álitamálum í hinu alþjóðlega umhverfi, t.d. þegar kemur að öryggismálum og umhverfis- og jafnréttismálum svo eitthvað sé nefnt.

Norðurlandaþjóðirnar deila einnig sameiginlegri sýn á ákveðin grunngildi, eins og t.d. um mikilvægi mannréttinda, lýðræðis og réttarríkisins og um friðsamlega lausn deilumála.

Norðurlandaráð er þingmannavettvangur í opinberu norrænu samstarfi og mörg þeirra réttinda sem eru sameiginleg á Norðurlöndunum eiga rætur að rekja til Norðurlandaráðs, en það vita kannski ekki nógu margir enn þá. Alþingi hefur verið fullgildur meðlimur Norðurlandaráðs allt frá stofnun þess árið 1952. Norrænir þingmenn hafa stundum gagnrýnt kostnað við fundi á Íslandi og við Íslendingar höfum þá svarað því til að við séum öll fullgildir aðilar að ráðinu og því sé eðlilegt að haldnir séu fundir til skiptis í aðildarlöndunum. Hið sama hlýtur að gilda um Grænlendinga.

Ég tel að þörf sé á því að við þingmenn ræðum meira um norrænt samstarf, hvaða verkefni eru á döfinni hverju sinni og hverju þau skila. (Forseti hringir.) Þannig eyðum við tortryggni þeirra sem telja að slíkt samstarf sé aðeins peningasóun. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)