149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Guðmundar- og Geirfinnsmálið er nú í endurupptöku fyrir Hæstarétti. Þetta átakanlega mál hefur fylgt þjóðinni í áratugi og var oft í opinberri umræðu. Málið náði hámarki í febrúar 1976 í mikilli orrahríð hér í þessum sal. Í endurupptökunni krefjast ákæruvaldið og verjendur sýknu. Í málinu kemur fram að hinir dæmdu hafi játað á sínum tíma vegna þrýstings frá lögreglu. Margt bendir til þess að rannsókn málsins hafi verið ábótavant.

En hvernig eru gæði rannsóknarlögreglunnar í dag? Fagaðilar sem ég hef rætt við eru á einu máli um að það væri mjög til bóta að stofna sérstakt embætti rannsóknarlögreglu ríkisins en embættið var lagt niður við stofnun embættis ríkislögreglustjóra og flest rannsóknarverkefni færð til lögreglustjóra í héraði. Með nýju embætti yrði þekking og kunnátta í rannsóknum erfiðra rannsókna á einum stað. Embættið kæmi síðan lögregluembættunum til aðstoðar eftir þörfum.

Í nágrannalöndum okkar eru sérfræðingar á sviði rannsókna sem eru til aðstoðar öðrum embættum Almennt þarf löggæslan að snúast meira um gæði. Í þeim efnum þarf vilji löggjafans að koma betur fram. Það vantar stefnu stjórnvalda um gæði löggæslunnar og rannsókna. Það þarf að vera langtímahugsun við stefnumótun og framkvæmd.

Það er umhugsunarefni hvort sú breyting að færa lögregluskólann til Akureyrar hafi í raun skilað tilætluðum árangri. Ég hef rætt við lögreglumenn sem eru þeirrar skoðunar að innihald lögreglunámsins á Akureyri sé ekki ásættanlegt. Til að halda gæðum löggæslu og rannsókna sem bestum þarf að tryggja stöðuga þjálfun og endurmenntun bæði hér heima og erlendis.

Góður árangur lögreglunnar í störfum sínum er okkur öllum mikilvægur. Miðflokkurinn vill búa sem best að lögreglunni í landinu og að (Forseti hringir.) fjárveitingar taki mið af íbúaþróun og auknum verkefnum hverju sinni.