149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það er rétt að vekja athygli þingheims á samþykkt frá borgarstjórnarfundi í gær. Þar var samþykkt að klára breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur árin 2010–2030 með samgöngu- og þróunarásum fyrir hágæðakerfi almenningssamgangna borgarlínu; að hefja skipulagsvinnu rammaskipulags fyrir hágæðakerfi almenningssamgangna í sérrými með austur/vestur-tengingu frá Lækjartorgi upp á Ártúnshöfða og norður/suður-tengingu um Vatnsmýri; að gera áætlun og eftir atvikum hefja skipulagsvinnu fyrir fjölbreytta húsnæðisuppbyggingu meðfram þróunarásum borgarlínu sem verði unnin samhliða. Ég nefni tillögur að reitum innan áhrifasviðs hágæðaalmenningssamgangna þar sem unnið er sérstaklega með hagkvæmar og nútímalegar lausnir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur.

Herra forseti. Þetta eru viss tímamót sem hljóta að knýja ríkisstjórnina til þess að taka fullt tillit til þessarar ákvörðunar borgarstjórnar. Ríkisstjórnin verður með ráðum og dáð að styðja við framgang borgarlínunnar. Hið sama gildir um samgöngubætur í Hafnarfirði og Garðabæ. Þar þarf að greiða fyrir umferð til að geta dregið úr slysahættu og auka lífsgæði íbúanna. Umferð um hringtorgið við Setberg í Hafnarfirði er t.d. að verða sú sama og um Ártúnsbrekku, það er sami umferðarþungi. Hafnarfjarðarvegurinn klýfur Garðabæ í tvennt, þar þarf að leita lausna.

Herra forseti. Suðvesturhornið má ekki gleymast þegar hæstv. samgönguráðherra ekur um kjördæmi sitt.