149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Síðastliðinn mánudag fór hér fram umræða um orkuöryggi þjóðarinnar og var ánægjulegt að heyra að allgóð samstaða var meðal þingmanna um mikilvægi þess að byggja upp flutningskerfið og treysta afhendingaröryggi rafmagns um land allt, eins og hæstv. iðnaðarráðherra Þórdís Kolbrún Gylfadóttir boðaði.

Þessu tengdu, herra forseti, vil ég nefna það hér að á dögunum kom frá orkuspárnefnd ný og uppfærð raforkuspá fyrir árin 2018–2050. Samkvæmt þeirri raforkuspá mun raforkunotkun aukast um 80% á árunum fram til 2050 eða sem nemur tæplega 2% að meðaltali á hverju ári. Í heildina eykst því notkunin um 460 megavött sem bent hefur verið á að samsvarar þremur Blönduvirkjunum. Er þá ekki gert ráð fyrir því að neinir orkufrekir aðilar séu inni á markaðnum, aðeins að haldið verði í við raforkunotkun almennings.

Sem sagt, það sem blasir við að við þurfum að gera er að beisla meiri orku og leggja betri línur og komast upp úr því drullusvaði sem mörg þessara framkvæmdaáforma eru föst í innan stjórnsýslunnar. Þetta verður að gera ef hrinda á t.d. í framkvæmd aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum eða klára að rafmagnsvæða fiskimjölsbræðslurnar.

Eitt sem ég vil nefna hér að lokum, herra forseti, talandi um svæði sem eru kynt með raforku með hjálp olíu er Vestfirðirnir og það kemur aðeins inn á Hvalárvirkjun. Það væri strax til bóta, herra forseti, ef stjórnvöld fylgdu eftir þeirri stefnu sem Alþingi hefur þegar markað í þessu máli, (Forseti hringir.) fylgdu lögbundnum ferlum eins og rammaáætlunum en létu vera að grípa einhverjar upphrópanir á lofti til þess að þvæla málið og stíga skref aftur á bak.