149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Það var verið að ræða þessa ferð á Norðurlandaráðsþingið rétt áðan, hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir gerði það. Hún talaði um að ég væri eiginlega að gagnrýna starfsmenn og það sem þá varðar, það skipulag. Ég er að gagnrýna það að upplifun mín af þessari ferð hafi verið þannig að ég tel að ef ég hefði vitað nákvæmlega um þessa ferð fyrir fram hefði ég aldrei farið í hana. Það sem ég er að gagnrýna er að ef skipulagið var svona gott, hvers vegna í ósköpunum var ég í tvo daga í Nuuk að spóka mig um og skoða mig um án þess að gera nokkuð í sambandi við þingið? Það byrjaði ekki fyrr en á miðvikudeginum og þá kom stór hluti af hópnum til Nuuk. Það er svona skipulag sem ég furða mig á. Þarna er 70.000–80.000 kr. hótelkostnaður sem var algjör óþarfi. Ég bara spyr: Ef þetta er eðlilegt, hvað er þá óeðlilegt?

Ég hugsa þetta líka í því samhengi, þegar maður fer að horfa á hlutina, hvort það er t.d. eðlilegt að senda fólk til Svíþjóðar í mjaðmaaðgerðir sem kosta þrisvar sinnum meira? Það væri hægt að taka þrjá hérna heima fyrir einn. Er þetta eðlilegt? Ég segi nei.

Er eðlilegt að kostnaður á Þingvöllum hafi farið langt út fyrir allt, hann tvöfaldaðist? Er eðlilegt að hlutirnir bara tvöfaldist eða að eitthvað sé borgað „af því bara“? Ég segi fyrir mitt leyti að ég trúi því vel að hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir, sem er í stjórn þarna, sé að gera góða hluti en ég upplifði það að þarna hefði verið hægt að senda tvo, þrjá menn til að klára þetta. Það þurfti ekki allan þennan skara, það er þetta sem ég er að spyrja um. Þurfum við ekki að breyta?

Eins og með Þingvallakostnað og annað, ef við horfum á svona kostnað, 22 milljónir í lýsingu, var það boðið út? 40 milljónir í timbur (Forseti hringir.) og smiði; ég spyr bara: Hvað varð um allt þetta timbur?