149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[15:37]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um mannanöfn. Flutningsmenn eru ásamt sjálfum mér Guðjón S. Brjánsson, Hanna Katrín Friðriksson, Björn Leví Gunnarsson, Jón Steindór Valdimarsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.

Í þessu frumvarpi eru lagðar til nokkuð róttækar breytingar á þeirri umgjörð sem mannanöfnum eru mörkuð í lögum í dag, raunar það miklar breytingar á núgildandi lögum að frumvarpið felur í sér nýja löggjöf um málið og að fyrri löggjöf falli brott.

Í mínum huga er þetta dæmigert mál um togstreituna milli frelsis og forræðishyggju. Núgildandi mannanafnalöggjöf felur nefnilega í sér í mínum huga alveg ótrúlega forræðishyggju hins opinbera á því hvaða nöfnum foreldrar megi skíra börn sín. Þó að ásetningurinn sé vissulega góður, eins og oft í slíkum tilvikum, er ágætt að hafa í huga þegar horft er t.d. á hefðbundin rök um að nafn eigi ekki að vera barni til ama, að hætta sé á að barn geti orðið fyrir aðkasti eða einelti vegna nafngiftar foreldra, að tilvikin þar sem starfandi mannanafnanefnd hafnar nafni af þessum sökum eru örfá. Þá velti ég líka fyrir mér öllum þeim öðrum ákvörðunum sem foreldrar geta tekið í daglegu uppeldi barna sinna sem gætu orðið þeim til ama, stríðni jafnvel. Klæðaburður, að vera í einhverjum hallærislegum fötum í skóla, léleg klipping eða hvað annað mætti nefna. Hvað með allar þær aðrar mikilvægu ákvarðanir sem foreldrar taka í uppeldi barna sinna sem skipta miklu máli um uppvöxt þeirra á komandi árum, svo sem bara heilnæm fæða eða val á tómstundum þar sem við treystum foreldrum einfaldlega til að taka þessar ákvarðanir með hagsmuni barna sinna í huga en erum ekki með lagabálk og opinberar nefndir sem eiga að hafa eftirlit með foreldrum sérstaklega í því, enda höfum við heilt yfir regluverk sem snýr að barnavernd og þá þeim tilvikum þar sem um alvarlega vanrækslu getur verið að ræða.

Önnur röksemdafærsla sem heyrist gjarnan er íslensk málhefð, að við þurfum að standa vörð um nafnahefðina okkar og málhefðina. Það er athyglisverð röksemdafærsla í því samhengi að nafnahefð okkar þróaðist hér í aldanna rás án þess að um hana giltu nokkur einustu lög. Okkur virðist hafa tekist ágætlega upp með það og við höfum staðið vörð um þessa nafnahefð okkar allar götur síðan. Það er í raun og veru ekki fyrr en fyrir rétt rúmri öld sem okkur hugkvæmdist að setja löggjöf til að verja þessa málhefð sem skapast hafði frá því að land byggðist allnokkru fyrr.

Það er líka annað sem vert er að hafa í huga, málið okkar er í stöðugri þróun. Við erum ekki með stöðug inngrip Alþingis eða löggjafans um hvernig það þróast. Það hefur tilhneigingu til að þróast með stöðugum inngripum þeirra sem þetta land byggja og verður ekki séð að ekki sé óhætt að leyfa nafnahefð okkar að þróast með málinu til lengri tíma litið.

Þetta frumvarp var áður flutt á 148. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga þá. Það er endurflutt núna að teknu tilliti til þeirra umsagna sem allsherjar- og menntamálanefnd aflaði.

Markmiðið er sem fyrr segir að tryggja rétt einstaklinga til að bera það nafn eða þau nöfn sem þeir kjósa og tryggja að lög um mannanöfn takmarki ekki persónufrelsi fólks eða frelsi fólks til að skilgreina sig. Sem fyrr segir var sambærilegt frumvarp flutt á Alþingi á 148. þingi og áður hafði frumvarp um breytingar á gildandi mannanafnalögum verið lagt fram á 144. löggjafarþingi, 2014–2015. Þó að það frumvarp hafi efnislega verið svipað þessu gekk það í vissum atriðum skemmra.

Með frumvarpi þessu er t.d. lagt til að ekki verði gerður greinarmunur á eiginnöfnum og millinöfnum og skylda til að kynbinda kenninöfn barna við foreldra er felld brott. Það sem þetta frumvarp á sammerkt með frumvarpinu sem lagt var fram á 144. löggjafarþingi er t.d. brottfelling ákvæða um að stúlkum skuli gefin kvenmannsnöfn og drengjum karlmannsnöfn, að nöfn megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi og að nafn megi ekki vera nafnbera til ama. Þá er lagt til að mannanafnanefnd verði lögð niður og öll ákvæði um hana felld brott. Að því marki sem þessi mál eru lík er greinargerðin hér byggð á greinargerð bæði frumvarpsins á síðasta þingi og frumvarpsins sem lagt var fram á 144. þingi.

Sem fyrr segir þykir rétt, vegna þess hve víðtækar breytingar á gildandi mannanafnalögum felast í frumvarpinu, að leggja fram frumvarp um ný heildarlög í stað breytinga á gildandi lögum.

Það er ágætt að hafa í huga að réttur til nafns nýtur verndar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta er auðvitað persónubundinn réttur, nafn er nátengt sjálfsmynd og sjálfsvitund fólks og varðar fyrst og fremst einkahagi og persónurétt. Í þeim lögum um mannanöfn sem lagt er til að breyta eru víðtækar takmarkanir á þessum rétti sem ekki verða rökstuddar með vísan til almannahagsmuna eða annarra hagsmuna sem réttlætanlegt er að byggja á í nútímasamfélagi.

Einnig eru áhugaverð í gildandi löggjöf þau ákvæði sem snúa að ættarnöfnum sem fyrst voru fest í sessi árið 1925 þar sem þá varð óheimilt samkvæmt lögum að taka upp ný ættarnöfn, en þau ættarnöfn sem áður höfðu verið tekin upp í málið voru bundin við niðja þeirra sem þau höfðu tekið upp. Þeim lögum var reyndar nokkuð illa fylgt eftir þannig að allnokkur dæmi voru um að ættarnöfn væru engu að síður tekin upp á árunum á eftir. Árið 1991 voru ný lög um mannanöfn samþykkt. Þar voru þá bæði þessi svokölluðu löglegu ættarnöfn sem og ólöglegu fest í sessi að nýju og skerpt á því banni að taka mætti upp ný ættarnöfn.

Þetta rímar mjög illa við nútímasamfélag þar sem við erum með einhvers konar forréttindahóp sem megi bera ættarnöfn, megi viðhalda þeim út frá því að forfeður þeirra hafi á einhverjum tímapunkti ákveðið að breyta nafni sínu í þessa veru, því að flest eru þessi ættarnöfn í huga þeirra sem forsjárhyggjuna aðhyllast sennilega mjög alvarlegt frávik frá íslenskri málhefð. Auðvitað á hverjum manni bara að vera frjálst hvort hann kýs að taka upp ættarnöfn eða ekki, viðhalda ættarnöfnum sem notið hafa hefðar í viðkomandi ættum eða endurreisa jafnvel ættarnöfn erlendra forfeðra eða foreldra sem lengi vel var bannað samkvæmt íslenskum lögum.

Það eru fleiri þættir sem vert er að nefna sérstaklega. Aðeins varðandi nafnahefðina og málkerfi íslenskrar tungu verðum við að trúa því að við þurfum ekki lög eða þvinganir til að viðhalda einhverri tiltekinni hefð eða tilteknum venjum. Útgangspunktur frumvarps þessa er að við eigum að geta treyst fólki til að þróa þessa nafnahefð okkar áfram með sama hætti og við eigum að geta treyst foreldrum til að velja börnum sínum nöfn sem ekki verði þeim til ama þegar fram í sækir.

Að lokum vil ég nefna eitt mikilvægt atriði sem er nýmæli í frumvarpinu, heimildina til að breyta kynskráningu sinni í þjóðskrá og gilda þá um þá skráningu sömu reglur um breytingar á slíku og um breytingar á nafni, að fólki sé frjálst að breyta kynskráningu sinni í þjóðskrá og að heimilt verði að skrá kyn sem karl, konu eða annað. Í frumvarpinu er valmöguleikinn reyndar: Annað/órætt. Það er nokkuð sem kann að valda deilum, t.d. í samfélagi hinsegin fólks, og er vert að hlusta eftir sjónarmiðum hvað það varðar og ætti í sjálfu sér að vera fullnægjandi að notast einfaldlega við skilgreininguna „annað“.

Þetta skiptir verulega miklu máli þó að e.t.v. sé um lítinn hóp að ræða. Þegar við horfum t.d. á hagsmuni transfólks í þessu samhengi er í núgildandi regluverki skilyrði þess að geta farið í kynleiðréttingu að hljóta til þess þar að lútandi samþykki, m.a. hjá Landspítala og landlækni, og að undangengnu 18 mánaða tímabili þar sem viðkomandi einstaklingur hefur þá lifað í nýju kynhlutverki. Það er mjög sérkennilegt að á sama tíma sé ekki hægt að breyta kynskráningu sinni eða nafni í þjóðskrá og getur verið viðkomandi einstaklingum til verulegs ama að vera að lifa í nýju kynhlutverki en bera óbreytt nafn og óbreytta kynskráningu í þjóðskrá. Við teljum fulla ástæðu til að losa um þessar hömlur og einfaldlega að einstaklingnum sé heimilt að breyta kynskráningu sinni í þjóðskrá kjósi þeir svo, með sama hætti og þeim sé fyllilega frjálst að breyta nafni sínu í þjóðskrá, hvernig sem þá lystir og hversu oft sem þá lystir.

Þetta mál er núna lagt fram í þriðja sinn á tiltölulega skömmum tíma og ég vona innilega að við náum um þetta mál vandaðri umræðu og að við náum að breyta þessari forneskjulegu mannanafnalöggjöf í þetta skiptið, treysta fólki, að við leyfum fólki að njóta frelsis til vals á eigin nafni eða nöfnum barna sinna en látum af þeirri forræðishyggju sem er að finna í núgildandi löggjöf.

Að svo sögðu legg ég til að málinu verði vísað til allsherjar- og menntamálanefndar sem ég hygg að hafi fengið þetta mál síðast líka.