149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[15:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að heyra að flutningsmanni þyki ekkert athugavert við að við göngum lengra en lagt er til í þessu íhaldssama frumvarpi hans [Hlátur í þingsal.] en ég held að við í nefndinni hljótum líka að þurfa að athuga að ganga skemmra. Þó að við opnum mannanafnakerfið og liðkum aðeins fyrir skráningu óháð kyni og millinafna- og ættarnafnakerfi erum við samt með íslenskt mál sem við þurfum að standa vörð um. Það er nokkuð sem ég held að þingnefndin verði að taka til alvarlegrar skoðunar, hvernig sé hægt að ná fram þessum meintu breytingum í átt til frjálsræðis án þess að það gangi of nærri íslenskunni, tungumálinu sem ég held að við hljótum öll að vera sammála um að verja. Við í allsherjar- og menntamálanefnd munum væntanlega einhenda okkur í að vega og meta kosti og galla þess annars vegar (Forseti hringir.) að afnema nafnaskráningar yfir höfuð og hins vegar að tryggja hag íslenskunnar í nafnaskráningu.