149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[15:54]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Forseti. Það er auðvitað ekki á allt kosið í þessu. Yrði nafnaskráningin afnumin með öllu er málverndin farin fjandans til, geri ég ráð fyrir. Ég held að það sé líka vert að hafa í huga í breyttu samfélagi. Þó að það sé alveg rétt að okkur þyki mjög vænt um -son og -dóttir og okkar nafnahefð sem slíka búum við í fjölþjóðlegu samfélagi í dag. Við búum við þá staðreynd að sennilega erum við að nálgast fimmtung landsmanna sem er fæddur erlendis og væntanlega á þá töluverður fjöldi landsmanna ýmist foreldra eða ömmur og afa sem fluttu hingað til lands og var jafnvel ekki heimilt að viðhalda nöfnum sínum samkvæmt nafnahefð uppruna síns og myndu gjarnan kjósa að geta breytt til hans aftur. Ég hef ekki áhyggjur af því að málhefðin verndi sig ekki sjálf, þetta er nú einu sinni hefð og hún er býsna rík í okkur og þó að hún muni örugglega mótast og þróast í aldanna rás munum við væntanlega ekki breyta henni á einni nóttu við (Forseti hringir.) afnám þessara laga.