149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[15:56]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P) (andsvar):

Forseti. Ég fagna þessu frumvarpi, enda mikil áhugamanneskja um að forræðishyggja hvað varðar nafngiftir sé minnkuð. En ég spyr hvort ekki sé tilvalið að breyta heitinu á lögunum. Nú heita þau lög um mannanöfn. Margir vilja segja að konur séu líka menn en það eru ekki allir sem geta fallist á að menn séu líka konur. Í ljósi þess að frumvarpið miðar að því að heimilt verði að skrá karlkyn, kvenkyn og annað/órætt kyn og að ekki skuli vera aðrar takmarkanir settar á að nöfn séu ekki lengur kyntengd spyr ég hvort ekki hefði legið beinast við að endurnefna lögin t.d. lög um eiginnöfn eða lög um kenninöfn.