149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[15:58]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlögnina og að fylgja frumvarpinu eftir. Ég tek líka undir rétt bæði hinsegin fólks og transfólks og þess sem hér er undir, það er af hinu góða, sem og millinöfn og ættarnöfn. Ég hef ekki alveg sömu tilfinningu og Jónsson, félagi minn sem stóð hér áðan, af því að ég hef millinafnið Olsen. Það var of flókið og langt ferli að setja það sem ættarnafn á eftir föðurnafni. Ég þurfti að taka það upp svo sonur minn gæti tekið það upp því að það mátti ekki falla niður hjá milliliðum.

Það sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann um er praktískt. Við erum bæði áhugamenn um greiningar á alls kyns tölfræði, m.a. að fá frá Hagstofunni skýringar á kynbundnum launamun. Hvernig sér þingmaðurinn það fyrir sér ef (Forseti hringir.) við erum komin með a.m.k. þrjár skráningar miðað við þetta?