149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[15:59]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugaverða spurningu í andsvari. Nú erum við að tala um eitthvert almennilegt vandamál. Ég hlakka svolítið til að sjá kerfið takast á við að þurfa jafnvel að greina launamun eftir þremur kynjum eða fleirum. Ég hef hins vegar engar teljandi áhyggjur af því. Ég held að það sé liður í þeirri þróun sem á sér stað, við erum bara að viðurkenna að kynin eru jafnvel fleiri en tvö. Eigum við þá kannski að endurspegla skráningu okkar í þjóðskrá í þeirri staðreynd, að virða rétt fólks til kynvitundar sinnar og skráningar í samræmi við það þó að það flæki örlítið myndina þegar kemur að einhverjum tölfræðilegum upplýsingum um þjóðina? Hún er hvort eð er alltaf talsvert einfölduð og má alveg vera örlítið flóknari mín vegna ef það tryggir réttindi fólks betur.