149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[16:01]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég er alveg sammála því að þetta er í takt við breytta tíma. Við eigum að gera þetta varðandi Þjóðskrá og Hagstofan þarf þá væntanlega líka að breyta hjá sér. Ég veit ekki hvort þetta krefst einhverra viðbótarlagabreytinga við það sem hér er nefnt. Það getur vel verið. Eða kannski er þetta bara spurning um starfshætti einhverra stofnana. En það verður áhugavert að velta þessu upp af því að við erum vön því í öllu kerfinu okkar að allt sé greint á milli tveggja kynja og ekki tekið tillit til þeirra sem falla utan þess hefðbundna. Það væri áhugavert fyrir nefndina að velta þessu upp, hvort það sé eitthvað fleira þarna undir sem þarf að breyta í framhaldinu ef þetta verður að lögum. Ég tek undir að það yrði svolítið spennandi að sjá kerfið takast á við að greina gögn með öðrum hætti en gert hefur verið.