149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[16:06]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Frelsið getur verið vandmeðfarið. Ástæðan fyrir því að ég staldraði sérstaklega við þetta nafn sem mannanafnanefnd hefur hafnað, karlmannsnafnið Lusifer, er sú að ég þekki ágætlega trúarbragðasögu í gegnum nám mitt og veit til þess að ef barn bæri þetta nafn gæti það valdið verulegum vandræðum við ferðalög. Ef viðkomandi óskaði t.d. eftir því að heimsækja eitthvert land, ég nefni bara múhameðsríki, gæti viðkomandi jafnvel verið neitað um að heimsækja það land. Það eru mörg sjónarmið í þessu sem foreldrar og (Forseti hringir.) þeir sem koma að nafngiftum átta sig kannski ekki á alveg í fyrstu. Þess vegna tel ég afar brýnt að við höfum einhvers konar úrræði til að tryggja að svona hlutir gerist ekki.