149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[16:07]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Forseti. Ég skil mætavel áhyggjur hv. þingmanns en kannski er líka ágætt að hafa í huga, og má ekki gleyma í þessu samhengi, að við erum með almenna barnaverndarlöggjöf. Það má vel hugsa sér að grípa þyrfti til úrræða barnaverndarlaga væri nafngift með þeim hætti að hún væri talið ganga svo á rétt barnsins að það varðaði barnaverndarlöggjöf með sama hætti og einhver önnur alvarleg vanræksla foreldra.

Í 1. mgr. 1. gr. barnalaga segir t.d. að óheimilt sé að beita barn hvers kyns ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Það getur vel verið að einhver skelfileg nafngift myndi einfaldlega falla undir slíkt og væri þá viðfangsefni barnaverndarnefnda en ekki mannanafnanefndar. Þess vegna hef ég ekki teljandi áhyggjur af þessu.