149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[16:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég styð þetta mál. Ég hefði reyndar viljað vera meðflutningsmaður á því og mér var boðið það en ég gat það ekki vegna þess að ég var utan þings og var með varamann inni á þeim tíma en Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, er meðflutningsmaður á málinu. Ég styð það eins og fyrri ræður mínar kannski gefa lauslega í skyn.

Mig langar til að byrja á því að vitna í hv. 5. þm. Reykv. n., Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Hún sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra þann 14. desember 2017, með leyfi forseta:

„Eini marktæki mælikvarðinn á það hvort einhver sé í raun frjálslyndur eða ekki er hvort viðkomandi sé tilbúinn að styðja aukið frelsi fólks til að gera eitthvað sem honum eða henni finnst vond hugmynd. Það er ekkert mál að segjast styðja rétt fólks til að vera sammála sér en það er frelsi þeirra sem eru ósammála sem við þurfum að standa vörð um.“

Þetta þóttu mér glæsileg orð þá og þykir enn. Mér finnst þau eiga við.

Þetta mál snýst ekki um það hvað okkur persónulega finnst um það hvernig nöfn eigi að vera í landinu. Ef svo er getum við ekki kallað okkur frjálslynd. Það er bara þannig að mínu mati og að því er virðist einnig hv. þingmanns sem ég var að vitna í. Sjálfur er ég mjög ánægður með nafnið mitt. Það er frekar hefðbundið, Helgi Hrafn Gunnarsson, venjulegt nafn þannig séð, íslenskt alveg fram í fingurgóma. Á ensku er það Holy Raven Son of a Gun þannig að ég get grínast með það þar. Á arabísku er það Ghurab Muqaddas bin Muhaarib sem enginn á Íslandi kann að bera fram nema ég, að því er virðist, nema fólk sem kann smáarabísku.

Mig langar til að byrja á að fjalla aðeins um algengasta misskilninginn sem kemur fram þegar þetta mál er rætt. Það eru börn, blessuð börnin sem við viljum öll vernda. Það er auðvelt að grípa í málefni barna þegar einhver er á móti einhvers konar frelsisaukningu. Það virðist vera stöðluð aðferð ef það á að leyfa eitthvað að byrja á að segja: Hvað um börnin? Jú, börn eru til og, jú, þau skipta máli. Þau hafa réttindi eins og barnalög segja til um. En þessi lög voru ekki sett til að vernda börn. Þau fjalla ekki um börn. Ég skora á þingmenn að lesa sér til um sögu laganna sem eru í gildi. Þau fjalla ekki um börn og koma börnum ekkert við. Meira að segja eina klausan sem hugsanlega er hægt að segja að sé hugsuð fyrir börn er sú að nafn skuli ekki vera nafnbera til ama en það á líka við um fullorðið fólk. Hún tilgreinir ekki einu sinni sérstaklega börn. Þessi lög koma börnum ekkert við. Barnaverndarlög koma börnum við og þau eiga að sjá um að vernda börn gegn hvers konar ofbeldi foreldra, andlegu sem líkamlegu.

Þetta á að vera sjálfsagt, það á ekki að þurfa að rökræða þetta eitthvað mikið. Þetta er bara ábending. Svona er þetta á Íslandi, barnalög eru í gildi, og þá finnst mér að það ætti bara að slaufa þeirri umræðu allri saman.

Einnig er talað um íslenska menningu sem mér þykir, eins og væntanlega flestum hér inni, ef ekki öllum, afskaplega vænt um. En íslenska menningin sem mér þykir vænt um, sem ég er glaður að komast aftur í snertingu við þegar ég kem heim frá útlöndum, er ekki vegna þess að löggjafinn sé búinn að banna mér að gera eitthvað eða banna öðrum Íslendingum að iðka sína íslensku menningu eins og þeim fjárakornið sýnist. Íslensk menning er sjálfsprottin og kemur frá þjóðinni sjálfri. Hún kemur af ákvörðunum okkar hvers og eins, ekki af því hvað við á Alþingi ákveðum að beri að vernda sérstaklega gegn einhverjum ágangi þessa frjálshugsandi fólks úti í samfélaginu. Það er frjálshugsandi fólk úti í samfélaginu sem ákveður þessa hluti, ekki við, eða þannig ætti það að vera í það minnsta.

Reyndar þykir mér þessi löggjöf, eins og hún stendur í dag, vera fullkomin vantraustsyfirlýsing á íslensku þjóðina um að geta haldið sinni eigin menningu, sem tilheyrir ekki Alþingi heldur Íslendingum sjálfum, þessu sama fólki og við á Alþingi höfum víst ætlað að hafa vit fyrir eins og Íslendingar myndu ekki vita hvað þeim þætti vænt um, ekki hvernig menningu Íslendingar sjálfir vildu hafa. Þetta er algjörlega fráleit hugsun.

Það leiðir mig yfir í það sem hefur verið nefnt áður og er alveg rétt, að þegar allt kemur til alls snýst þetta um frelsi eða forræðishyggju, um hvernig við lítum á frelsi í grundvallaratriðum. Í raun og veru hugsa ég þetta mál sem eitt stykki í miklu stærra verki um það hvernig Íslendingar hugsa um frelsi í grundvallaratriðum. Kemur valdið frá þjóðinni og leitar upp á við eða kemur það með valdboði að ofan og leitar niður á við? Þetta er grundvallarspurning. Ég ætla ekki út í stjórnarskrárumræðu hér en sami punktur á við þar.

Sú hugmynd að manneskja af tegundinni homo sapiens geti fæðst íþessu landi og foreldrarnir ákveðið að kalla þennan nýja einstakling eitthvað sem foreldrunum finnst fallegt eða við hæfi og þurfi leyfi yfirvalda til þess er gjörsamlega á skjön við alla hugmynd um frelsi. Hún er ekki aðeins á ská, hún er 180 gráður í öfuga átt. Ef við eigum ekki einu sinni nöfnin okkar, hvernig dirfist fólk að tala um frjálslyndi í sömu andrá og það styður botnlausa þvælu eins og gildandi lög um þetta efni og reyndar fleiri? Þetta er algjör forræðishyggja, ein mesta forræðishyggjan, miklu meiri en að setja áfengi í sérstakar vínbúðir, jafnvel reknar af ríkinu, jafnvel skattlagðar sérstaklega. Sumir geta kallað það forræðishyggju og það er alveg hægt að taka þann debatt. Þetta? Þetta er algjör forræðishyggja. Hún verður ekki öllu meiri en þessi að mínu viti. Ég veit ekki um sterkara dæmi en þetta. Það er þess vegna sem ég verð frekar blóðheitur þegar ég ræði þetta í langan tíma.

Það er stundum sagt að í raun og veru geti foreldrar alveg nefnt barnið sitt hvað sem þeim sýnist en hvernig það verði skráð í þjóðskrá þurfi að fara eftir lögum. Þetta er útúrsnúningur að mínu mati. Þjóðskrá er skrá. Ef hugmyndin er sú að þjóðin eða Íslendingar eða fólk sem byggir þetta land skrái nafnið sitt segir það sig sjálft að þetta hlýtur að vera nafn einstaklingsins sem það ber, ekki eitthvert nafn sem þjóðskrá líkar vel við. Þá væri væntanlega kennitala og síðan kannski það sem ríkinu finnst að kalla eigi tiltekið barn eða tiltekinn einstakling. Og reyndar er það nafn til, það heitir kennitala. Númer. Það er praktískara á margan hátt. Það væri hægt að halda aðra eins ræðu um kennitöluna í öðru samhengi. Hún er samt ekki þvílíka forræðishyggjan sem þetta er, enda hefur hún ekki sama tilgang og er ekki jafn persónuleg fyrir fólki, a.m.k. ekki enn.

Nafn fólks er persónulegt, það er persónulegt fyrir fólk hvað annað fólk kallar það og líka hvað ríkisstofnanir kalla það.

Þetta á vel við í umræðunni um transfólk. Fólk er núna farið að biðja aðra um að nota tiltekin persónufornöfn, einstaklingar sem eru líffræðilega karlkyns en kjósa að láta ávarpa sig með kvenkyns persónufornafni vegna þess að þeir upplifa sig sem konur. Almennt finnst mér sjálfsagt að bera virðingu fyrir slíku. Ef ég ákveð að byrja að kalla einhvern sem heitir Vilhjálmur Villa og Vilhjálmur segir: Vinsamlegast ekki kalla mig Villa, mér finnst það óþægilegt, kalla ég hann bara Vilhjálm. Mér finnst það sjálfsögð tillitssemi. Ég þarf engar skýringar á því hvers vegna viðkomandi vill frekar vera kallaður Vilhjálmur en Villi, það kemur mér ekkert við. Það er ekki mitt að segja, bara svona í almennum kurteisisskilningi.

Sú hugmynd að við ætlum þá að hafa alvörunöfnin sem foreldrar, vinir og fjölskylda nota yfir börnin en ríkið, opinberar stofnanir og meira og minna öll félög sem notast við þjóðskrá megi kalla þennan einstakling eitthvað sem hann vill ekki láta kalla sig er sami dónaskapurinn og við fordæmum þegar fólk fer að kalla hvert annað nöfnum sem það vill ekki.

Þessi punktur um að skráning nafnsins í þjóðskrá sé eitthvað allt annað en nafn einstaklingsins er bara ekki réttur. Fólk vill almennt hafa nafnið sitt í þjóðskrá, kannski kallar það sig eitthvað annað dagsdaglega, ef það vill á sínum eigin forsendum, en ég segi a.m.k. fyrir sjálfan mig að ég vil hafa rétta nafnið mitt í þjóðskrá. Ég bara vil það. Mig langar ekkert að útskýra hvers vegna enda á þetta að heita skrá en ekki heimildalisti. Hann er hjá mannanafnanefnd sem hér er lagt til að verði lögð niður, blessunarlega og kominn tími til.

Mig langar líka aðeins að fara út í það sem er sagt í þessari umræðu um að þetta sé ekki mikilvægt mál. Það er reyndar sem betur fer sjaldnar sagt eða það er a.m.k. mín upplifun. Fólk er farið að upplifa meira og meira að þetta sé mikilvægt mál. Ég held að þar séu kynslóðaskipti. Það er bara fleira fólk sem vill bregða út af vananum og fleira fólk sem kemur frá öðrum stöðum eða nýjar hefðir eru að myndast í samfélaginu enda er það að breytast sem er bara sjálfsagt og gott. Og líka held ég að fólk sé meira að átta sig á hvers lags forræðishyggja þetta er í grunninn, alveg án tillits til þess hvort hún hafi einhvern tíma átt sér stað í menningunni árið 1914. Þetta er einungis til trafala núna og ég sé ekki að þetta geri neinum gott nema þá á kostnað þessa grundvallarfrelsis fólks. Þá er auðvelt fyrir mig að taka afstöðu.

Ef þetta er ekki mikilvægt mál, ef þetta er nokkuð sem við ættum ekki að vera að sóa okkar dýrmæta tíma í að ræða skulum við bara klára það. Ef fólk er ekki á sömu línu um það grundvallaratriði hvort við sjálf megum eiga í friði fyrir yfirvöldum svo mikið sem okkar eigið nafn legg ég til að það snúist um grundvallarhugmyndina um hvað það þýðir að vera frjáls einstaklingur. Ég legg til að það sé mikilvægt mál í þessu frumvarpi sem og öðrum sem snerta sambærileg efni.

Að lokum langar mig að nefna alveg ótrúlega kaldhæðni sem varðar transfólk. Í gildandi lögum kemur sérstaklega fram að nafn skuli ekki vera nafnbera til ama. Hvað heldur fólk að sé í gangi þegar transmanneskja vill fá nafni sínu breytt, segjum úr karlkynsnafni yfir í kvenkynsnafn, vegna þess að karlkynsnafnið er þeim einstaklingi til ama? Hvað gerum við þá? Við lögum þann ama með því að leyfa þeim einstaklingi að ráða þessu algjörlega sjálfum. Við erum ekki að segja fólki hvað það er, hvernig það á að vera, hvað það á að heita eða hvernig því á að líða þegar ríkið ákveður að kalla það eitthvað annað en það vill.