149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[16:25]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég styð þetta frumvarp, vænti góðs af því að fá að vinna að því í allsherjar- og menntamálanefnd og taka tillit til þeirra sjónarmiða sem fram kunna að koma. Eins og málið blasir við mér í núverandi mynd líst mér vel á það. Eldri lög með því fyrirkomulagi sem við höfum búið við um árabil með mannanafnanefnd og öðru slíku eru barn síns tíma.

Hv. þingmönnum hefur orðið tíðrætt hér um forræðishyggju sem er eitt af þessum orðum sem við notum svo oft, kannski án þess að hugsa út í þau. Ég myndi ekki vilja nota það orð þó að ég hafni því ekki í sjálfu sér. Mér virðist sem eldri lög og eldra fyrirkomulag sé til komið vegna þess að á sínum tíma litu Íslendingar almennt á það sem samfélagslegt verkefni að vera þjóð. Þetta lýsir óöryggi og jafnvel minnimáttarkennd nýrrar þjóðar sem hefur verið öldum saman upp á aðra þjóð komin, hefur ekki ráðið sínum ráðum og veit ekki alveg hvernig hún á að haga samfélagi sínu, veit ekki hvernig nútímasamfélagi á að haga sér, flytur inn lög og venjur evrópskra samfélaga og reynir að sníða að sínu litla og vanmáttuga samfélagi. Það var þjóðbygging sem átti sér stað í upphafi 20. aldarinnar, oft með þeim afleiðingum að ýmsar skrýtnar hefðir og venjur mynduðust og ákveðin tilhneiging varð til ofstjórnar, ákveðin taugaveiklun getum við sagt. Þetta lýsir ákveðinni taugaveiklun og vissulega vantrausti á því að við vitum alveg hvernig þetta á að vera og alveg sérstaklega að almenningur viti hvernig hann eigi að fara að því að haga lífi sínu.

Við hugsum ekki svona lengur. Við lítum ekki lengur svo á að það sé samfélagslegt verkefni að finna út úr því hvernig fólk gefur börnum sínum nafn. Það er bara ekki þannig. Fyrir utan það, eins og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson rakti ágætlega áðan í andsvari sínu, að komi til þess að barni sé gefið sérlega afkáralegt og fíflalegt nafn hlýtur að koma til kasta barnaverndaryfirvalda að hlutast til um það. Það er ekki verkefni málfræðinga að hafa vit fyrir fólki þegar kemur að því hvernig það velur börnum sínum nafn.

Við tölum líka dálítið um íslenskar nafnahefðir og íslenska menningu í því sambandi. Hv. þingmenn hafa nokkrir tjáð sig um það að þeim þyki mjög vænt um íslenska menningu sem er vissulega ánægjulegt, það er alltaf ánægjulegt þegar fólki þykir vænt um eitthvað, en ég er ekki viss um að þetta snúist endilega bara um það að þykja vænt um íslenska menningu, heldur snýst það líka um það að við höfum hér siði og venjur, og menningararfleifð sem á sér kannski rætur í fornum tíma og lifði hér í einangrun um aldir. Við höfum skyldur til þess að reyna að láta þessa menningararfleifð lifa í gegnum erfiða tíma og komast í gegnum menningarlegan brotsjó hverju sinni. Það er verkefni allra kynslóða að varðveita samhengið í menningu sinni. Skylda okkar gagnvart íslenskri tungu er að okkur beri að reyna að sjá til þess að íslensk tunga lifi af á flóknum tímum.

Þó að í íslenska nafnakerfinu séu verðmæti í sjálfu sér og að það sé gaman að fólk heiti -son og -dóttir og þar fram eftir götunum held ég að aðalatriðið sé að við látum menningarverðmæti ekki lifa með lagaboðum, heldur lifa þau í okkar daglega lífi. Þau lifa í eldhúsunum, setustofunum, sjónvarpsþáttunum, í því hvernig við tölum hvert við annað og hvernig við erum. Þau lifa ekki með lagasetningu. Það er ekki verkefni Alþingis að láta íslenska menningu lifa, það er verkefni okkar allra, Íslendinga, í okkar lífi. Ef við sjáum þetta ekki lengur og höfum ekki lengur sjálf áhuga á því að láta íslenska menningu lifa eru engin lög sem geta látið hana lifa. Þá bara deyr hún og þá er hennar tími liðinn.

Íslenskar nafnavenjur eru skemmtilegar. Þegar ég horfi á íslensku landsliðin keppa í t.d. knattspyrnu og maður fyllist stolti og ánægju hef ég sjálfur stundum pirrað mig á því að á búningunum stendur, og kemst varla fyrir á þeim, dvubdu-dóttir og bvubvudvu-son í staðinn fyrir að það væri bara Sigga, Jón, Nonni, Simbi, Gyða, eitthvað svoleiðis, eins og við notum sjálf. Þetta er hin íslenska nafnahefð sem okkur ber að varðveita. Við notum þetta. Ég segi ekki: Hv. þm. Víglundsson. Ég nota skírnarnafnið þegar ég ávarpa hv. þm. Þorstein Víglundsson. Ég ætla ekkert að fara að boða einhverja lagasetningu um þetta, en ég minni bara á það í þessum stól að þetta er mikilsverð og skemmtileg hefð sem er gaman að eiga.

Aðeins um ættarnöfnin. Mér er málið skylt í bókstaflegum skilningi, frændfólk mitt margt ber ættarnafn vegna þess að við erum afkomendur manns sem hét Thor, Thor Jensen, og börn hans tóku upp nafnið Thors sem er eiginlega bara Thorsson og Thorsdóttir, stytting á því. Sjálfur er ég Thorsson vegna þess að faðir minn hét Thor. Ég hef sem sagt ekki tekið upp þetta tiltekna ættarnafn og hyggst ekki gera það úr þessu. Ég er í hina ættina — nú er ég bara að leika mér með ímyndað dæmi, ég er að fabúlera í þessum ræðustól meðan ég hef enn tíma til þess — m.a. ættaður frá Seyðisfirði þar sem amma mín, Laufey Jónsdóttir, var ættuð frá bæ sem hét Hólmi. Systkini hennar fóru mörg til Ameríku og einn bróðir hennar sem var kallaður Bjössi tók upp nafnið Bill Holman þegar hann flutti til Ameríku. Einhvers staðar í Ameríku eru The Holmans, sem eru ættingjar mínir, og heita eftir þessum bæ, Hólma. Við getum ímyndað okkur að við sem erum afkomendur Laufeyjar kölluðum okkur Hólman. Ég væri sem sagt Guðmundur Hólman. Ég er að reyna að ímynda mér hvernig mér yrði við ef t.d. hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson vildi ganga til liðs við þessa góðu fjölskyldu og fara að kalla sig Hólman, Helgi Hrafn Gunnarsson Hólman. Ég veit það ekki, ég myndi kannski bara fagna því að fá svo góðan liðsauka í mína ætt en ég veit ekki hvernig öðrum yrði við.

Það sem ég er að reyna að segja er að við notum ættarnöfn til að aðgreina okkur frá einhverjum öðrum og til að finna að við tilheyrum einhverju tilteknu mengi. Það þarf ekki endilega að vera neitt svo ógurlega fínt mengi [Hlátur í þingsal.] í þeim skilningi að þetta séu mikil völd, áhrif og peningar. Alls ekki. Margt af því fólki sem ber ættarnöfn sem mátti taka upp í þessum litla glugga þegar mátti taka upp íslensk ættarnöfn var ekkert endilega einhverjir ríkisbubbar eða svoleiðis fólk. Þetta var bara fólk sem vildi kenna sig við fjörðinn sinn, dalinn sinn eða bæinn sinn. Svo vilja afkomendur þessa fólks aðgreina sig sem afkomendur þessa fólks. Við erum sem sé fólkið sem á ættir að rekja í Hólma á Seyðisfirði, finnum að við erum öll skyld og finnum einhverja samkennd í því.

Þetta er mikilsverður partur af íslenska ættarsamfélaginu sem er ákveðin grunngerð okkar íslenska ættarsamfélags. Við hugsum kannski ekki oft um það og kannski eru þessar hugmyndir núna um að gefa þetta alveg frjálst atlaga að því. Ég veit það ekki. Hugsanlega. Og kannski er það bara allt í lagi. Kannski er bara allt í lagi að hver sem er fái að kalla sig Hólman. Ég tel raunar svo vera.

Að þessu sögðu vil ég lýsa því yfir að ég styð þetta mál.