149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[16:38]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þingmanninum kærlega fyrir góða ræðu. Það var virkilega gaman að sitja úti í þingsal og hlusta á þessa ræðu um þetta athyglisverða mál. Í fyrsta lagi verð ég að segja að ég styð heils hugar að við gerum þá breytingu sem hér er lagt til að við gerum. Hins vegar vísaði þingmaðurinn í barnaverndarlög og þess vegna verð ég að spyrja: Hvað er fíflalegt nafn? Þingmaðurinn sagði að við þyrftum að bregðast við þegar við gæfum fíflalegt nafn. Ég hugsaði: Bíddu, jæja, hvað er fíflalegt nafn? Hver metur hvað er fíflalegt nafn? Ég er sammála því sem kom fram í andsvari hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni, þetta snýst auðvitað ekkert um menningu. Ég er líka sammála þingmanninum um að þetta snýst ekki heldur um forræðishyggju, þetta snýst meira um að vilja halda í einhverja gamla hefð af því að menn halda að hún hafi eitthvert tak á því hvernig við getum haft stjórn á því hvað einstaklingur heitir.

En spurningin er í rauninni: Hvað er fíflalegt nafn og hver getur ákveðið það?