149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[16:51]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson talaði svo hratt að ég náði ekki helmingnum. [Hlátur í þingsal.] En það voru vissulega fleiri rök en eineltisrök. Ég er að tala um að vernda menningararfleifð þjóðarinnar. Það hefðu einhvern tímann þótt rök.

Af því að það er orðið svo mikið frelsi að heita hvað sem er hef ég líka velt fyrir mér af hverju ég megi ekki tala hvaða tungumál sem er í þessum ræðustól. (HHG: Vegna þess að þetta er Alþingi.) Bíddu, af hverju? Er ekki bara mitt frelsi að tala hérna hvaða tungu sem er?

Við getum endalaust haldið svona áfram. Ég kaupi það bara ekki að þetta hafi eitthvað með frelsi eða frjálslyndi að gera. Ég lít svo á að þetta sé hluti af okkar samfélagi, þjóðareinkennum og menningararfleifð, alveg eins og margt annað. Ég lít ekki svo á að frelsi okkar sé svo skert með því að við getum ekki notað hvaða vitleysu sem er sem nöfn (Forseti hringir.) í þessu samhengi. Það er bara þannig sem ég horfi á þetta.