149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[16:56]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hérna kannski fyrst og fremst til að forða hv. þingmanni frá frekari leiðindum, a.m.k. í bili. Ég hafði mjög gaman af ræðu þingmannsins þó að ég sé eiginlega varla sammála nokkru orði sem þar kom fram. Eitt þótti mér þó gott, það að hv. þingmaður sagðist vera íhaldsmaður. Þar komst það loksins á hreint. Ég hef alltaf sagt að hv. þingmaður segðist vera frjálslyndur nema það væri fyrir þetta árans frelsi sem væri helsta vandamálið.

Það er þetta með listann sem hv. þingmaður vísaði til, að það væri úr nógum nöfnum að velja sem væri búið að setja á blessaðan listann, fólk hlyti að geta látið sér þau duga. Mér finnst þetta einmitt oft einkenna umræðu íhaldsmanna, það á að taka ljósmynd af stöðunni eins og hún er í dag og segja: Þetta er menningararfleifðin okkar og hér má engu breyta. Þetta minnir mann stundum á umræðuna um skipulagsmál, það má helst ekkert byggja í Kvosinni nema það líti nákvæmlega eins út og eitthvað sem var byggt fyrir 100 árum. Ég velti fyrir mér hvað hefði orðið ef við hefðum ákveðið að frysta torfkofana (Forseti hringir.) í Kvosinni og segja að hér mætti ekkert byggja annað en torfkofa um alla eilífð. Okkur liði sennilega ekkert vel með það.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé ekki sammála því að það megi jafnvel þróa þennan lista eitthvað áfram.