149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[17:02]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil hafa sterka mannanafnanefnd. [Hlátur í þingsal.] Ég tel það mikilvægt.

Við erum alltaf að eyða hérna miklum tíma, áhyggjum og fjármunum í stórátak í að verja íslenska tungu og menningu. Við erum alltaf að því. Hv. þingmaður hefur örugglega verið mjög fylgjandi því öllu saman. Svo kemur allt í einu núna að einhverjum mannanöfnum og þá skiptir það engu máli lengur. Það skiptir engu máli hvað menn heita, menn geta heitið útlenskum nöfnum. (GuðmT: Það má.) Hverju sem er, hvers konar nöfnum, skiptir engu máli. Af hverju skiptir þessi menningararfleifð engu máli en hætt á að allt fari til fjandans ef RÚV hverfur í þeirri tækni sem nú er til? RÚV skiptir auðvitað engu máli í dag þó að það hafi áður skipt máli þegar kom að menningunni. Ég efast ekki um að þetta hafi verið mjög mikil menningarstofnun áður fyrr. (Forseti hringir.) En af hverju fáum við ekki að lifa og komast inn í framtíðina þegar kemur að Ríkisútvarpinu? Öll menning fer til andskotans ef það fer.