149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[17:03]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ríkisútvarpið, eða Þjóðminjasafnið þess vegna eða aðrar sambærilegar stofnanir, er vettvangur fyrir menningarstarf, vettvangur fyrir það að rækta menningararf, staður þar sem fólk kemur saman og ræktar menningararf sinn á jafnréttisgrundvelli.

Mannanafnanefnd sem hv. þingmanni er svo dýrmæt er valdastofnun, valdboð, stofnun sem sker úr um hvað megi og hvað ekki. Ég tel, ólíkt hv. þingmanni, að almenningi sé alveg treystandi fyrir því mikilsverða verkefni að gefa börnum sínum nafn sjálfur og gefa þeim nafn sem endurspeglar það sem honum er kærast (Forseti hringir.) og heilagast, ekki það sem mannanafnanefnd kann að vera kærast og heilagast.