149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[17:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég skal bara vera heiðarlegur með það að ég kem upp í aðra ræðu vegna ræðu hv. þm. Brynjars Níelssonar sem fór um víðan völl eins og við heyrðum og nutum. Ég er svolítið að svara þeim álitaefnum sem hann kom fram með. Eitt af því er hinn meinti tvískinnungur. Ég tók vissulega eftir miklum tvískinnungi en hvorki í mínum eigin orðum, skoðunum eða afstöðu til þessa máls né annarra (Gripið fram í.) og mig langar við þetta tilefni að nefna nokkur mál þar sem ég hef tekið eftir því að a.m.k. minn þingflokkur, Píratar, hefur virst ívið frjálslyndari en flokkur hv. þingmanns almennt, (Gripið fram í: Neeei.) ekki að þetta eigi að fara út í einhverja sérstaka keppni. Mig langar bara til að hrekja þá hugmynd að enginn geti verið frjálslyndur nema hann sé með flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum. Það er einfaldlega rangt.

Ég hef tekið eftir því í orðræðu frá öðrum hv. Sjálfstæðismönnum, eins og t.d. ritstjóra Morgunblaðsins, að það sem virðist vaka fyrir mönnum þar á bæ er ekki frelsið. Það sem hún snýst um er að geta tekið andstæðinginn og merkt hann þessu ógurlega, hræðilega, hryllilega orði — vinstri — og notað það til að hræða fólk frá öðrum flokkum þótt þeir séu jafnvel frjálslyndari en flokkurinn sem hv. þingmaður er meðlimur í og þingmaður fyrir.

Ég sé alveg tvískinnung, en ég sé hann ekki hérna. Hv. þingmaður nefndi mig sérstaklega sem þingmann í samhengi við áfengismálið. Eins og ég sagði áðan í ræðu minni tók ég minn tíma í að hugsa um hið svokallaða áfengismál, þ.e. um að heimila sölu áfengis annars staðar en í búðum ríkisins, og ég er hlynntur því máli. Ég berst ekkert eitthvað sérstaklega fyrir því vegna þess að það er ekki innan áhugasviðs míns, en ég er alveg til í það. Ég veit alveg að það hefur afleiðingar. Það samræmist ekki helstu lýðheilsusjónarmiðum. Ég viðurkenni það bara, enda er það debatt sem við tökum þegar það mál kemur til kastanna. Eitthvað segir mér samt að það komi ekki frá Sjálfstæðisflokknum í þetta sinn heldur kannski frá hv. flutningsmanni þessa frumvarps, ef ég leyfi mér að giska.

Annað mál er vímuefnamál. Ég fullyrði bara hér og nú að enginn sitjandi flokkur á þingi og enginn annar í dágóðan tíma, ef nokkurn tímann, hefur sýnt jafn mikið frjálslyndi gagnvart því og Píratar — og við fáum skammir fyrir að segja: Hættum að refsa vímuefnaneytendum.

Sjálfstæðisflokkurinn myndi eflaust fara út í að segja: Förum að selja eitthvað úti í búð. Förum að selja eitthvað, fjárfesta í einhverju, setja peninga í eitthvað. En frelsið skiptir ekki bara fyrirtæki máli, hv. þm. Brynjar Níelsson. Einstaklingsfrelsi snýst um einstaklingana sjálfa, frelsi einstaklinga t.d. til að vera í friði fyrir ofsóknum yfirvalda vegna þess að þeir kjósa að setja í eigin skrokk eitthvert efni sem samfélagið er búið að segja að megi ekki, frelsi einstaklingsins til að velja sér sitt eigið nafn eða frelsi einstaklingsins til að mega brugga áfengi heima hjá sér til einkanota, eins og t.d. sá sem hér stendur hefur lagt fram, ekki Sjálfstæðisflokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn er uppteknari af viðskiptafrelsi en einstaklingsfrelsi. Svo lengi sem honum tekst að uppnefna aðra flokka vinstri er hann sáttur við sinn hlut í málefnum frelsis einstaklingsins. Og í því liggur tvískinnungurinn.

Hvað varðar höfundarétt hafa Píratar verið þeir sem vilja leyfa meira og banna minna. Hvað varðar guðlast vilja Píratar leyfa meira og banna minna. Það var þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem greiddi atkvæði gegn því frumvarpi, ekki það að ég ætli að kenna hv. þm. Brynjari Níelssyni um gjörðir þess annars ágæta þingmanns.

Um þjóðsönginn? Leyfa meira, banna minna, til þess að efla íslenska menningu og til þess að nota þjóðsönginn meira.

Hvað varðar hatursorðræðugreinina í almennum hegningarlögum er það sá sem hér stendur sem hefur gagnrýnt að hún gangi of langt og takmarki of mikið sem sé hættulegt fyrir minnihlutahópana sem þessari grein er ætlað að vernda.

Hvað varðar Ríkisútvarpið hef ég ekki staðið fyrir því að fólk sé neytt til að hlusta á það. Mér finnst umræða um Ríkisútvarpið eiga að eiga sér hér stað í kjölfar máls sem ég hvet hv. þingmann til að leggja fram þannig að við getum rætt það í þaula. Mér finnst alveg sjálfsagt að endurskoða hlutverk Ríkisútvarpsins. Tímarnir breytast og tæknin breytist. Mér finnst það algjörlega sjálfsagt. Ég hef algjöra ímugust á nefskatti og finnst að hann ætti að vera ólöglegur samkvæmt stjórnarskrá, bara sem skattform yfir höfuð ef út í það er farið.

Hv. þingmaður gerir mér og öðrum þingmönnum upp skoðanir sem við höfum ekki og gefur sér fyrir fram að bara vegna þess að ritstjóra Morgunblaðsins hefur tekist að uppnefna okkur vinstri hljótum við að vera á móti öllu því frelsi sem hv. þingmaður er annars hlynntur, bara ekki þegar það varðar þetta mál, ekki þegar það varðar einstaklinginn.