149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[17:20]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sitt sýnist hverjum um tvískinnunginn. Ég ætla ekkert að fara að þræta meira um það. En af hverju er sósíalismi hættulegur? (Gripið fram í: Hann er það ekki.) Jú. Í honum er innbyggð forræðishyggja. Einstaklingurinn skiptir ekki máli. (Gripið fram í.) Þú verður bara að lesa þér betur til í fræðunum.

(Forseti (ÞórE): Nota rétt ávarpsorð.)

Hv. þingmaður. Það er bara þannig. Það er allt í lagi að hafa þá skoðun að hann sé góður og gegn, og góður fyrir samfélagið. Það er allt í lagi. Það verður hins vegar ekki þannig að menn sem taldir eru til vinstri geti ekki haft einhverja skoðun á frelsi í einhverjum einstökum atriðum. Ég er bara að tala um að við verðum að vera svolítið samkvæm okkur sjálfum og ekki bara velja úr. Menn geta sagt: Ókei, þú ert að gera það sjálfur, þú ert að tala um frelsi þarna og þarna en svo ertu á móti þessu frelsi með mannanöfnin.

Þegar ég er að tala um frelsi einstaklingsins er það ekki takmarkalaust. Ég hef aldrei haldið því fram að það ætti að vera það. Ef það væri það værum við ekki með allt þetta kerfi. Þá værum við bara alveg frjáls, það væri frjálst hvar við byggðum, hvernig húsið væri, hvaða starfsemi við hefðum o.s.frv. Ég er ekkert að tala um slíkt frelsi.

Þess vegna er ég ekki að tala um að það þurfi að vera fullt frelsi með alls konar mannanöfn og hvers konar háttsemi í því. Ég get samt verið einstaklingshyggjumaður, frelsismaður og frjálslyndur. Það sem mér fannst bara svo skrýtið er að sumum hér sem hafa talað gegn því að ég fái að kaupa áfengi í búð af öðrum en ríkisstarfsmanni skuli vera svo umhugað um frelsi í mannanöfnum og þá megi maður bara hafa hvaða nafn sem er. (Forseti hringir.) Það er það sem ég skil ekki.