149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[17:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekkert á því að það eigi einungis að selja áfengi í ríkisverslun en ég get engu að síður svarað spurningu hv. þingmanns um það hvers vegna fólk geti aðhyllst þetta frumvarp en samt viljað hafa ríkisstarfsmann í að selja áfengi. Það er vegna þess að það er hægt að færa rök fyrir því að sala áfengis komi einhverjum öðrum við en neytandanum. Það er ekki hægt að færa rök fyrir því að nafn sem maður sjálfur ber sem einstaklingur komi neinum öðrum við. Það kemur engum öðrum við. (BN: Þú ákveður ekki nafn í upphafi.) Hv. þingmaður segir að maður ákveði ekki nafnið í upphafi, þ.e. hv. þingmaður nefnir punktinn um börn sem hefur verið farið hér yfir. Það tilheyrir barnaverndarlögum. Það er jafnvel hægt, nú hugsa ég svolítið upphátt, að setja klausu í þessi lög þar sem er sagt að ef þjóðskrá sjái tilefni til að bera eitthvert nafn undir Barnaverndarstofu eða einhverjar barnaverndarnefndir verði það bara gert. Gott og vel, ætti það þá ekki að laga það vandamál?

Eins og ég nefndi í ræðu minni áðan, sem ég hvet hv. þingmann til að hlusta á þegar hann hefur næði til, koma þessi lög börnum ekkert við. Þau voru ekki sett til að vernda börn, ekkert þeirra ákvæða sem eru í lögunum fjallar um að vernda börn. Þetta eina ákvæði um að nafn skuli ekki vera nafnbera til ama varðar alla og gildir um alla einstaklinga, (Gripið fram í.) líka áttrætt fólk sem ætti að vera komið með á hreint hvað það vill kalla sig og ætti líka að vera komið með það á hreint í sínu lífi hvað kemur öðrum við og hvað ekki.

Þetta ætti að svara spurningu hv. þingmanns. Það sem mér finnst skrýtið er að hv. þingmaður fer að tala um hvernig aðrir séu á móti frelsi annars staðar þegar hv. þingmaður stærir sig sjálfur síðan sig af því, með réttu, að aðhyllast aukið frjálslyndi í ýmsum málaflokkum, svo sem vímuefnamálum, nokkuð sem ég tel honum til tekna, eða í tjáningarfrelsismálum, sem ég tel hv. þingmanni líka til tekna. Svo hérna er hann á móti þessu máli en sér tvískinnunginn hjá öðrum. (Gripið fram í.) Hvers vegna skyldi það vera? Kannski bara vegna þess að hv. þingmanni leiðist eins og hann sagði.