149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[17:25]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka kærlega fyrir mjög góða umræðu um þetta mikilvæga mál. Það var sérstaklega áhugavert að hlusta á ræður tveggja hv. þingmanna, Helga Hrafns Gunnarssonar og Guðmundar Andra Thorssonar, og voru það eiginlega talsvert betri ræður til stuðnings þessu máli en framsöguræða mín. Ég þakka þeim kærlega fyrir innleggið og stuðninginn í þessu máli.

Til þess að ramma umræðuna af að lokum finnst mér þetta einmitt vera eindregið frelsismál gegn forræðishyggju sem hefur birst ágætlega í umræðunum, að treysta fólki til að velja sjálfu sér eða börnum sínum nafn. Þetta er ekki flókið. Við eigum fyllilega að geta gert það. Það er ekkert sem ekki ætti þá að vera vernd fyrir í núgildandi barnaverndarlögum sem mun þá vera hægt að grípa til ef nafngift er með slíkum eindæmum að það teldist barninu beinlínis til skaða.

Í öðru lagi hefur gjarnan verið vísað til málhefðarinnar eða nafnahefðarinnar okkar. Það er ágætt að hafa í huga að hún myndaðist hér algerlega ólögvarin í aldanna rás. Það var ekki fyrr en eftir að við ákváðum að reyna að frysta stöðuna hér á næstliðinni öld sem engu má breyta. Hér eftir má þessi hefð ekki þróast áfram í meðförum þjóðarinnar eins og hún vill hafa hana á hverjum tíma. Það er einmitt það sem er það skemmtilega við hefðir, þær eru venjubundnar, þær eru bundnar því sem hefur þróast og mótast og breyst frá einum tíma til annars. Hefðir eru ekki óbreytanlegar frekar en annað og þurfa ekki sérstaka lögvörn sem slíkar.

Það er áhugavert að blanda síðan þessari umræðu saman við önnur frelsismál eins og frelsi til að selja áfengi annars staðar en í verslunum ríkisins, eða frelsi á fjölmiðlamarkaði eins og hv. þm. Brynjar Níelsson vísaði til. Og þar sem hann er búinn að stimpla sig hér inn í andsvar er ágætt að fara aðeins nánar út í þá umræðu. Boðberar frelsisins í þeim efnum, Sjálfstæðisflokkurinn, hafa haldið á þessum málaflokki um áratugaskeið og engu breytt, hvorki varðandi Ríkisútvarpið né Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, nema að hún gengur undir nafninu Vínbúðin í dag. Að öðru leyti er ríkiseinokunin óbreytt og hin sama. Auðvitað má segja að það séu frelsismál eins og breytingar á mannanafnalögum. Ég skil hins vegar ekki hvernig þar fer saman íhaldssemi í mannanöfnunum en frelsisástin þegar kemur að áfenginu eða Ríkisútvarpinu ef því er að skipta.

Í einföldu máli: Lög um mannanöfn eru löngu úr sér gengin. Það er engin ástæða og engin sérstök knýjandi þörf, ekki almannaheill sem í hlut á, að ríkið hafi vit fyrir einstaklingum, hvorki um eigin nafngift, lengd nafns eins og hefur verið nefnt hér, fjölda nafna eða hvernig nafngift er háttað að öðru leyti.

Ég hlakka til að sjá hvernig þessu máli vindur fram í meðförum þingsins í vetur en ég er alla vega bjartsýnn eftir umræðurnar hér í þingsal á að nú ætti þetta loks að geta náð fram að ganga.