149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[17:31]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að við hv. þingmaður séum bara alveg sammála, það mætti gjarnan veita fólki meira frelsi til að ráða yfir sjálfu sér. Og sú breyting sem hér er lögð fram veitir fólki einmitt umtalsvert meiri rétt til að ráða yfir sjálfu sér, m.a. að afnema þessa furðulegu reglu um að maður megi einungis breyta nafninu sínu einu sinni — maður á eitt skot í þeirri byssu og ef maður hefur einhvern tíma afmáð millinafn má ekkert eiga frekar við nafnið þar eftir. Við höfum séð margar kómískar uppákomur í fjölskyldum. Jafnvel eftir að lögunum var breytt og fjölskyldum leyft að endurreisa erlend ættarnöfn gat fjölskyldumeðlimur sem hafði afmáð millinafn einhvern tímann ekki verið með í þeirri púllíu því að hann var búinn með sitt tækifæri.

Vissulega veitir þessi breyting fólki aukið frelsi til að ráða yfir sjálfu sér, ráða eigin nöfnum.

Það er alveg rétt að hér er líka farið með rétt foreldra til að ráða nöfnum barna sinna. Við treystum þeim sömu foreldrum til margvíslegra annarra ákvarðana fyrir hönd ólögráða barna sinna þar til börnin eru komin til vits og ára eða hafa lögum samkvæmt öðlast forræði yfir eigin málum. Við erum með, held ég, alveg fullnægjandi varnarlínu í barnalögum og þá barnaverndarmálum til þess að grípa inn í ef um grófa vanrækslu er að ræða eða ef foreldrar taka ákvarðanir sem eru börnunum beinlínis til ama eða miska. Ég held að það eigi alveg jafn vel við í ákvörðun um nafn og aðrar þær ákvarðanir sem foreldrar taka eða taka ekki í málefnum barna sinna. Ég held að það sé ekki neitt til að hafa miklar áhyggjur af.