149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

erfðafjárskattur.

10. mál
[17:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að forvitnast aðeins um það hvað átt sé við með því í greinargerð og því sem kom fram í ræðu hv. þingmanns að erfðafjárskatturinn sé skattur sem komi til viðbótar tekjuskatti. Þegar ég las þetta fyrst hugsaði ég með mér: Þarf maður að borga tekjuskatt plús erfðafjárskatt? Ég skoðaði þetta aðeins og fann það merkilegt nokk í lögum um tekjuskatt, 28. gr., þar sem ég sé ekki betur en að arftaka teljist ekki til tekna enda hafi erfðafjárskattur verið greiddur.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað sé átt við þarna vegna þess að ég er sennilega að misskilja þetta eitthvað. (Gripið fram í: Já.)

Í öðru langaði mig að spyrja hv. þingmann, í ljósi þess að þarna sé um tvísköttun að ræða samkvæmt greinargerðinni, hvers vegna hv. þingmaður leggi þá ekki til að skatturinn verði lagður niður, sem mér þætti eðlilegt ef um tvísköttun væri að ræða. En ég er reyndar líka með spurningu um það hvernig þetta sé tvísköttun. Ég kem að því í seinna andsvari.