149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

erfðafjárskattur.

10. mál
[17:47]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að bjóða hv. flutningsmenn velkomna í hóp marxista sem hafa hér uppgötvað hvernig hægt er að nota þrepaskipt skattkerfi til að auka jöfnuð í samfélaginu. Og þótt ég hafi kannski ekki umboð til þess vil ég líka bjóða þá velkomna í hóp heiðurspírata fyrir að hafa áttað sig á því að tölvukerfi ríkisskattstjóra fer ekki yfir um þótt búið sé til það sem oft er kallað flókið skattkerfi með ólíkum skattprósentum. Það eina sem ég myndi kannski setja út á þetta mál væri að ekki séu fleiri þrep.

Mig langaði umfram allt að spyrja hv. þingmann hvaðan þessi upphæð er fengin. 75 milljónir hljóma nú dálítið mikið fyrir meðaleinstakling að skilja eftir sig við andlát. (Forseti hringir.) Gæti þingmaðurinn varpað ljósi á tilurð þeirrar upphæðar?