149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

erfðafjárskattur.

10. mál
[17:48]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst að fjárhæðarmörkunum. Þegar ég var að vinna að undirbúningi þessa frumvarps hér á vormánuðum aflaði ég mér upplýsinga um það hvert væri meðalverð á íbúðarhæð hér í Reykjavík, ekki í miðbænum, heldur í úthverfum. Það er í kringum 70–80 milljónir. Það er auðvitað þannig, sem betur fer, að meðalfólk hér á Íslandi, launafólk, nær kannski yfir langa starfsævi að byggja sig upp þannig að það skilji eftir sig eignir upp á 70–80 milljónir. Auðvitað eru dæmi um miklu meiri eignir. En ég er bara að ná utan um venjulegt fólk.

Varðandi þrepaskipt skattkerfi að öðru leyti hef ég talað fyrir því og bent á að það eigi að taka (Forseti hringir.) upp flata skattprósentu í tekjuskattskerfi en stiglækkandi (Forseti hringir.) persónuafslátt sem þýðir að skattþrepin verða jafn mörg og skattgreiðendurnir. (Forseti hringir.) Ég hef greinilega meiri trú á ríkisskattstjóra en hv. þingmaður.