149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

erfðafjárskattur.

10. mál
[17:53]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Svarið er já. Ég velti þessu mjög fyrir mér. Ég ákvað hins vegar með réttu eða röngu að fara þessa leið vegna þess að það er þá ekki verið að breyta í sjálfu sér neinu öðru en að innleiða lægra þrep. En það er auðvitað alveg sanngjarnt sjónarmið að það sé eðlilegra að miða erfðafjárskattinn ekki út frá búinu heldur út frá því sem kemur í hlut viðkomandi erfingja. Ég held að það hljóti að koma til skoðunar í efnislegri meðferð hér í þinginu, og sérstaklega í efnahags- og viðskiptanefnd, að skoða það sem hv. þingmaður bendir réttilega á og ég þakka honum kærlega fyrir.

Ég held að ég geti bara sagt: Í hjarta mínu er ég sammála því að það eru réttlætisrök að fara þá leið sem hv. þingmaður nefnir hér. Mér finnst það einnar messu virði a.m.k. að fara í gegnum það hvað mælir með því. Ég held að það sé meira sem mælir með því en á móti því.