149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

erfðafjárskattur.

10. mál
[17:55]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið og það að taka undir þessar hugmyndir, að þær séu a.m.k. einnar messu virði eins og hann orðaði það. Síðan má líka nefna, og auðvitað tengist þetta allt, hvort endurskoða þurfi þá upphæð sem er undanskilin, sem ekki tekur erfðafjárskatt, en hún hefur verið óbreytt lengi. Mín almennu viðhorf eru þau að reyna einhvern veginn að búa þannig um hnúta að hlutdeild í — nú ætla ég ekki að nota orðið eðlilegt — einhvers konar meðaldánarbúi verði ekki skattlögð, það sem fellur í hlut hvers arftaka. Eigum við að segja að það sé ekkert óeðlilegt að ætla að það geti verið á bilinu 75–100 milljónir í dánarbúi almennt talað? Arftakar eru kannski þrír, fjórir. Það er ekki andlag mikillar skattlagningar þó (Forseti hringir.) að 10 milljónir eða svo falli í hlut hvers erfingja og þá er kannski ekki sérstök ástæða til að skattleggja það af hálfu ríkisins.