149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

erfðafjárskattur.

10. mál
[18:09]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Erfðafjárskattur er svolítið sérstakt fyrirbæri. Ég var mjög duglegur innheimtumaður ríkissjóðs á erfðafjárskatti fyrir 35 árum. Þá voru reglurnar allt öðruvísi en í dag. Þá þurfti maki að borga erfðafjárskatt. Þetta hefur breyst. Það eru auðvitað alls konar sjónarmið í þessu. Sumir segja: Þetta er bara eignatilfærsla, þetta eru tekjur eins og hverjar aðrar tekjur og á að skattleggjast þannig. Þetta er eignatilfærsla. Öll eignatilfærsla er skattlögð. Það er alveg sjónarmið. Svo er það auðvitað sjónarmið, og það var ástæðan fyrir því að hætt var að skattleggja maka, að þetta séu eignir sem hjón hafi komið sér upp saman þó að eitthvað hafi hugsanlega verið skráð sem hjúskapareign annars þeirra. Það er margt í þessu. Svo er það líka sjónarmið að fjölskyldan, þ.e. skylduerfingjar, eigi ekki að borga erfðafjárskatt, þetta sé hluti af því sem fjölskyldan sem eining kemur sér upp. Þetta eru allt sjónarmið.

En ég er á þessu frumvarpi vegna þess að verið er að spóla til baka frá sérstökum aðstæðum sem eru ekki lengur fyrir hendi þegar umræddur skattur var hækkaður. Ég tel að við breyttar aðstæður sé rétt að snúa til baka með þessum hætti, ég tel þetta ágætisfrumvarp. En ég skil alveg öll þessi sjónarmið. Þetta er allt hægt að rökræða betur. Ég hef aldrei nálgast þetta sérstaklega frá því sjónarhorni að við séum að afsala okkur tekjum eða kasta á glæ, ríkissjóður. Ég horfi þannig á þetta að það séu bara þessi sjónarmið sem eigi að gilda, hvers konar eining er fjölskyldan o.s.frv.