149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

erfðafjárskattur.

10. mál
[18:15]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka enn fyrir andsvarið og ítreka að mér finnst umræðan áhugaverð og vangaveltur hv. þingmanns. Ég get alveg séð rökin fyrir því að skattprósentan eigi að vera mismunandi eftir því hvort um er að ræða 1. stigs erfingja eða 2. eða 3. stigs eða enn lengra aftur, að menn erfi fúlgur fjár án þess í raun að hafa á nokkrum tímapunkti með neinum rétti unnið til þeirra.

Ef við rýnum áfram á samfélagsgerðina er talið að ríflega helmingur milljarðamæringa í Evrópu hafi erft auðæfi sín, hafi í raun lítið til þeirra unnið annað en að hafa fæðst inn í efnaða fjölskyldu. Þannig hefur þetta vafalítið verið um langt skeið. En aftur: Ef bilið á milli ríkra og fátækra heldur áfram að breikka og við missum hreinlega tökin á því held ég að erfðafjárskattur sé einmitt eitt ágætt tæki til þess að reyna a.m.k. að halda aðeins á móti.