149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

erfðafjárskattur.

10. mál
[18:17]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég er búinn að vera að hlusta á þessa umræðu og lesa í gegnum frumvarpið og fjölmiðlaumfjöllun um það. Ef það er rétt skilið eins og kemur fram í fjölmiðlum mun þetta frumvarp, ef það verður að lögum, lækka um helming erfðafjárskatt af eignum sem eru undir 75 milljónum kr. Menn kinka kolli hérna sem styðja frumvarpið, þannig að það virðist vera … [Hlátur í þingsal.] Nú, ég hélt að hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson styddi frumvarpið, ég hlustaði á ræðuna og fannst hann vera svo jákvæður fyrir þessu, vitnaði í John Stuart Mill og fleiri. En hann styður þá ekki frumvarpið.

Mig langar til að koma inn í þessa umræðu og vona að hv. flutningsmaður málsins, Óli Björn Kárason, sé að hlusta. Það er búin að vera umræða í heiminum um hvernig sé gott að skattleggja eða rétt að endurskoða skattkerfi heimsins í ljósi þeirra miklu breytinga sem hafa átt sér stað og eru að eiga sér stað nú á 21. öldinni, m.a. vegna upplýsingatæknibyltingarinnar en líka annarra hluta. Það kemur fram í leiðaragrein The Economist, þetta er forsíðumyndin hjá þeim, þetta er í forgrunni eða aðalfókus blaðsins 9. ágúst, að grundvallarskattbreytingar — ég ætla að þýða þetta bara beint, án þess að lesa það á ensku á undan þó að það sé heimilt — geti aukið hagvöxt og gert samfélög sanngjarnari sama hvaða hlutfall af landsframleiðslu ríkið tekur í skattinnheimtu. Sem betur fer eru þær grundvallarreglur skýrar sem hin ríku ríki geta notað til að hanna góð skattkerfi. Þar er tekið fram, ef einhver getur hjálpað hér í salnum, ég þarf að fá þýðinguna á íslensku á „taxes should target rents“, skattar ættu að fókusera á, „target rents“, man einhver hvað það þýðir á íslensku í hagfræðilegu tilliti? Hv. þm. Smári McCarthy veit það og ég ætla að spyrja hann og fá það á hreint.

Þrjú atriði eru nefnd, þetta var það fyrsta. Svo er bætt við atriði tvö og það er að viðhalda jákvæðum hvötum, skapa ekki neikvæða hvata og draga úr umsvifum með skattheimtunni. Númer þrjú er að það eigi að vera erfitt að komast undan sköttunum, að þeir sem skattarnir eiga að falla á geti ekki á auðveldan hátt komist undan þeim. Þetta eru þessar þrjár meginreglur.

Þess vegna ættu öll ríki, heldur áfram í greininni, að skattleggja bæði eignir og erfðafé meira. Við verðum að taka eftir því að þetta er leiðari The Economist sem er mjög hægri sinnað blað, frjálslynd stefna, sumir myndu segja nýfrjálshyggjuleg, sem þeir eru með, en þeir benda á að ef menn ætla að endurhugsa skattstefnuna séu þetta atriði sem mjög mikilvægt er að horfa til vegna þessara forsendna.

Áfram heldur í greininni um þessa skatta, þeir eru óvinsælir en að mestu mjög skilvirkir.

Þá vil ég koma inn á skattstefnu Sjálfstæðisflokksins, alla vega í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þegar var verið að breyta skattkerfinu og þá var hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson. Þá var talað um að ástæðan fyrir því að verið væri að minnka þrepið á milli efra og neðra virðisaukaskattsþreps væri sú að það væri skilvirkara. Það var verið að afnema undanþágur vegna þess að það gerði skattkerfið skilvirkara. Ég trúi ekki öðru en að Sjálfstæðisflokkurinn vilji áfram hafa sterkan fókus í sinni skattstefnu á að skattarnir séu skilvirkir. Og það sem The Economist bendir hér á er að erfðafjárskattur er mjög skilvirkur skattur, reyndar einn sá skilvirkasti. Það segir áfram í greininni að í heimi þar sem eignir skapa ákveðinn hvalreka sem yfirfærist milli kynslóða séu slíkir skattar líka mjög ákjósanlegir.

Þeir nefna að það væri mjög íhaldssamt en jákvætt fyrsta skref í þessa átt, að færa sig í átt til 21. aldar skattheimtu þar sem skattarnir eru skilvirkari, erfiðara að komast undan þeim og viðhalda jákvæðum hvötum, að hætta við lækkanir á erfðafjárskatti.

Í þessu frumvarpi er lagt til að lækka erfðafjárskattinn. The Economist leggur annað til. Þeir sem vilja kynna sér þetta geta bara tekið upp blaðið eða farið á netið og fundið þessar tillögur og athugað hvort þeir séu sammála þeim eða ekki. Í þessu frumvarpi er lagt til að lækka erfðafjárskatt, en The Economist, í sinni heildarstefnu um endurskoðun skattheimtunnar á 21. öldinni, leggur til að það eigi að hætta því, snúa til baka með lækkanir á erfðafjárskatti. Þetta er nokkuð sem þeir sem eru áhugasamir um skattheimtu sem er skilvirk og erfitt að komast undan og viðheldur jákvæðum hvötum þurfa að kynna sér.

Svo kemur hérna aðeins neðar í greininni um mikilvægan þátt. Ef við ætlum að lækka skatt sem er skilvirkur og erfitt að komast undan, sem erfðafjárskatturinn er, getum við ekki verið að lækka einhverja aðra skatta sem eru ekki jafn skilvirkir? Það þarf að forgangsraða. Hvaða skatta á að lækka? Þetta er sérlega mikilvægt í ljósi 21. aldarinnar þar sem sjálfvirkni starfa er að aukast, við erum með róbóta eða vélmenni eins og t.d. sjálfkeyrandi bíla, þeir eru vélmenni í eðli sínu, eða alls konar algóritma eða forrit sem í dag eru byrjuð að skrifa fjármálafréttir, byrjuð að leita að dómafordæmum o.s.frv. Þessi þróun heldur áfram og fjórða iðnbyltingin mun breyta störfum að því leytinu til að vel launuð störf í dag verða enn betur launuð því að þá þarf þessa eiginleika sem tölvurnar og róbótarnir taka ekki yfir. Og láglaunastörfin staðna eða hverfa. Þá kemur hérna fram að þegar vinnumarkaðurinn heldur áfram að pólaríserast milli þeirra sem hafa há laun og allra hinna þyrfti að skoða tekjuskattinn, hann ætti að vera lágur eða jafnvel negatífur fyrir þá sem lægstu launin hafa.

The Economist segir í sinni stefnumótun þegar kemur að endurskoðun á skattkerfi 21. aldarinnar að við eigum einmitt að hækka ef eitthvað er erfðafjárskattinn og við eigum að snúa okkur að því að lækka aðra skatta og þá nefna þeir sérstaklega tekjuskattinn.

Mér sýnist að í þessu frumvarpi sé verið að fara algerlega í hina áttina. Ég vona að þetta verði tekið vel fyrir í efnahags- og viðskiptanefnd og þessi sjónarmið rædd því að þetta er hið stóra samtal sem á sér nú stað í heiminum. Það hefur ekki reynst Íslendingum vel þegar við reynum að finna upp hjólið og tökum ekki inn í myndina það sem menn eru að hugsa úti í hinum stóra heimi. Ég trúi ekki öðru en að menn muni taka þessi sjónarmið með í reikninginn og trúi því ekki að Sjálfstæðisflokkurinn eigi eftir að styðja það að það sé verið að lækka skatta sem erfitt er að komast undan, auðvelt er að innheimta og eru skilvirkir í stað þess að lækka aðra skatta sem eru óskilvirkir, enda hefur það verið stefna Sjálfstæðisflokksins að hafa skattana skilvirka.