149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

erfðafjárskattur.

10. mál
[18:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er nú þess konar mál sem ég myndi helst vilja mynda mér skoðun á eftir að það hefur fengið umfjöllun í nefnd, eftir að nefndaráliti hefur verið skilað um það. Ég geri ráð fyrir að þau verði fleiri en eitt í þessu máli þar sem um skattlagningu er að ræða og það hefur tilhneigingu til að pólarísera þingmenn, eðlilega.

Ég þekki efnið ekki jafn vel og hv. 8. þm. Suðvest., Jón Þór Ólafsson, verð ég að viðurkenna, en ég er með nokkrar vangaveltur sem mig langar til að henda fram með þeim fyrirvara að það er gert áður en nefndarstörf hafa farið fram. Ég hef svolítið glímt við þessa hugmynd um erfðafjárskatt í víðu samhengi, ekki síst í sambandi við það hvernig við lítum á samfélagið sem ýmist vinstri eða hægri. Sögulega tekur sú spurning mjög mikið til stéttaskiptingar sem fyrirbæris.

Ég er ekkert hrifinn af háum sköttum. Mér finnst það ekkert markmið að skattleggja. Ég sé ekki fyrir mér tækifæri hér til að skattleggja eða eitthvað því um líkt. Þvert á móti vil ég frekar nýta þau tæki sem þegar eru til staðar til að skattleggja en að finna upp ný, t.d. hvað varðar gjaldtöku á ferðamenn. Ég átta mig ekki alveg nákvæmlega á því hvers vegna fólki finnst svona ofboðslega mikilvægt að búa til ný gjöld, nýjar tegundir af gjöldum og sköttum, þegar það eru almennir skattar í landinu eins og tekjuskattur, virðisaukaskattur, fjármagnstekjuskattur o.fl.

En þegar kemur að erfðafjárskatti sé ég hann í miklu víðara samhengi en sem tekjur ríkissjóðs. Ég sé hann í raun mjög lítið í samhengi við tekjur ríkissjóðs. Ég sé hann miklu frekar í samhengi við fyrirbærið stéttaskiptingu og þá sér í lagi þegar við erum að tala um margar kynslóðir og ofboðslega mikið af peningum. Ég er foreldri. Ég á foreldra. Foreldra minna vegna vona ég að þeir fari á undan mér. Ég er reyndar svo heppinn að eiga líka tvo afa og tvær ömmur þrátt fyrir að vera næstum 38 ára gamall. Ég er mjög heppinn maður hvað þetta varðar. En ég geri alveg ráð fyrir að einn daginn þurfi ég að sjá á eftir einhverjum erfðafjárskatti. Og mér finnst ekkert að því. Það pínir mig ekki neitt. Ég held að aðrir þættir, þegar að því kemur, muni frekar eiga hug minn.

En það sem mér finnst svolítið erfitt við þetta mál er að mér finnst sumir sem eru tilteknir í erfðalögum lúta öðrum lögmálum en aðrir, sem dæmi að maki fái einn þriðja af arfi, að maki þurfi að borga erfðafjárskatt, finnst mér pínu skrýtið — nú, hv. þingmaður virðist leiðrétta mig með það að svo sé ekki. Ef svo er ekki er það gott. En hugmyndin finnst mér alla vega slæm ef ég hugsa um það þannig. Að börn borgi erfðafjárskatt finnst mér í fljótu bragði eðlilegt, með þeim fyrirvara að ég hef svolítið gert ráð fyrir að hann væri til staðar, þessi skattur, og hef ekki ímyndað mér veröld án hans, verð ég að segja.

En svo velti ég fyrir mér: Ókei, kannski skilur foreldri eftir sig einhverja tugi milljóna í formi fasteigna og kannski einhvern varasjóð sem það hefur byggt upp, kannski 75 milljónir; mér finnst það ekkert absúrd tala fyrir einhvern sem hefur verið duglegur að byggja sér upp eignir yfir ævina og hefur þénað ágætlega. Á heilli starfsævi er hægt að þéna ágætlega ef vel er farið með fé og ef manneskjan er í aðstöðu til að safna því og fara vel með fjármuni sína. En svo hugsa ég kannski um eitthvað eins og 75 milljarða eða bara 7,5 milljarða eða 750 milljónir. Um leið og ég er farinn að hugsa um þessar tölur á einhverjum verulegum skala er ég farinn að sjá beinlínis stéttaskiptingu og þá hugsa ég: Nokkrar kynslóðir? Ókei, allt í lagi. Að erfa foreldri sitt, kannski er foreldrið búið að safna öllum þessum auði vegna þess að foreldrið vildi skilja eitthvað ríkulegt eftir fyrir börnin sín, sem ég skil mætavel og ber alveg virðingu fyrir, að það sé eitthvað sem fólk vilji geta gert og eigi að geta gert.

En svo hugsa ég: Hvað um fjórðu kynslóðina? Hvað um barnabarnabarnabörnin sem eru milljarðamæringar vegna þess að einhver einn einstaklingur náði að selja rosalega mikla olíu eða fann upp rafmagnsbílinn eða eitthvað? Ég veit það ekki. Ég hef ekkert á móti því að fólk sé ríkt. Ég segi stundum eins og sumir hægri menn: Ég er ekki á móti ríkidæmi, ég er á móti fátækt. Ástæðan fyrir því að ég tel mig samt til jafnaðarmanna og sósíaldemókrata er að ég tel að of mikill munur fátækra og ríkra leiði af sér valdamisvægi og það er þar sem ég set spurningarmerki og reyndar er bara á móti því. Það er í stuttu máli stéttaskipting. Það að einhver hópur eða einstaklingar séu orðnir svo ofboðslega ríkir, eitthvað sem mér er sama um eitt og sér, að þeir hafa bein völd yfir samfélaginu á einhvern hátt finnst mér ekki í lagi og þess vegna kalla ég mig jafnaðarmann.

Það er með öðrum orðum ekki af sanngirnisástæðum, miklu frekar af frelsis-, lýðræðis- og jafnvægisástæðum, sem ég tel mjög mikilvægt að við höfum þetta á hreinu.

Ef ég set mig algerlega í spor hægri mannsins í mér finnst mér að fólk eigi að fá að njóta afraksturs erfiðis síns, þegar það búi eitthvað til eigi það að fá að njóta þess. Í því sambandi finnst mér ekkert ofboðslega freistandi að hækka skatta að því marki að það teljist næstum því til eignaupptöku eða eitthvað því um líkt; með þeim fyrirvara að við þurfum skatta til að halda uppi samfélaginu og allt það. En þegar ég hugsa um fjórðu kynslóðina af óheyrilegu ríkidæmi, sem sá einstaklingur lagði ekkert af mörkum til að öðlast, skil ég ekki heldur sanngirnisrökin. Ég skil ekki hvernig það er gott fyrir neinn nema þennan heppna einstakling, sem þekkti sennilega ekki einu sinni manneskjuna sem aflaði auðsins og hvað þá lagði til. Sá einstaklingur sem aflaði auðsins var varla að hugsa til barnabarnabarnabarna sinna. Varla. Eða hvað? Er það?

Mér finnst þannig allt í lagi, ég held að mér finnist það hreinlega æskilegt, að auður dvíni með kynslóðunum að einhverju marki. Hvort það sé skattur sem geri það að verkum eða ekki er aukaatriði í mínum huga. Það er bara það eina sem blasir við að það sé notað til tekjujöfnunar almennt, þ.e. þessi gamla hugmynd um að nota skattkerfið beinlínis til að auka jöfnuð.

Þetta eru meira vangaveltur. Ég er ekki að segja að gera ætti arf upptækan eða endilega hækka þennan skatt. Þetta eru bara breyturnar sem berjast um í huga mér þegar ég hugsa um þetta mál.

En ef ég vík mér aðeins meira efnislega að málinu, þ.e. þeirri hugmynd að lækka þennan 10% skatt niður í 5% þegar um er að ræða skattstofn 75 milljónir eða minna, ef ég horfi alveg blákalt á það, spyr ég einnig um forgangsröðun, samanber það sem hv. þm. Jón Þór Ólafsson fór hér yfir áðan. Ef við segjum að við viljum lækka skatta um þá upphæð sem ríkissjóður yrði af með þessari breytingu myndi ég aldrei velja þennan skatt fyrst. Ég myndi alltaf velja einhvern annan skatt. Ég myndi hækka persónuafslátt eða eitthvað því um líkt. Og reyndar áður en ég færi út í að lækka skatta myndi ég sennilega reyna að fjármagna betur ýmsa liði hjá ríkinu sem þarf að fjármagna betur. Mér kemur ýmislegt til hugar sem mér finnst óþarfi að setja á einhvern lista í samhengi við þetta mál.

En ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti. Ég bara hlakka til að sjá nefndarálitin, sem ég geri ráð fyrir að verði í fleirtölu, og ræða þetta mál betur við 2. umr.