149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[18:36]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum.

Meðflutningsmenn með mér á frumvarpinu eru hv. þingmenn Andrés Ingi Jónsson, Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.

Frumvarpið lætur frekar lítið yfir sér eins og er alltaf með tímamótamál, en er engu að síður afar mikilvægt. Í rauninni má segja að með frumvarpinu sé verið að tryggja að í lögum sé ákvæði sem heimili ráðherra að setja það sem skilyrði í samninga sem snúa að þjónustuveitendum heilbrigðisþjónustu að reksturinn sé ekki í hagnaðarskyni, reksturinn sé það sem kallað er á ensku, með leyfi forseta, „non-profit“.

Þetta er að mörgu leyti athyglisvert mál vegna þess að það má í sjálfu sér ráða af texta gildandi laga að ráðherra sé de facto heimilt að setja þessa kvöð, þ.e. honum er ekki bannað það. Hæstv. þáverandi heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, setti einmitt þessi skilyrði þegar samið var um einkareknar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu árið 2016.

Síðan hefur þetta svokallaða „non-profit“ ákvæði í samningunum verið víkkað út til annarra einkarekinna heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu og nú eru allar einkareknu heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu með þetta ákvæði í sínum samningum. Má kannski segja að að þessu leyti til hafi Sjúkratryggingar í rauninni verið að beita jafnræðisreglu, það væri ekki verið að semja við sambærilega aðila á hvorn sinn háttinn um sambærilega þjónustu. Við sem flytjum þetta mál teljum því mjög mikilvægt að taka af öll tvímæli um þetta, að þessi heimild sé í raun og veru í lögunum.

Það hefur verið mikil umræða um heilbrigðisþjónustu og um arðgreiðslur í heilbrigðisþjónustu undanfarin misseri og frumvarpið er að sumu leyti afurð þeirrar umræðu. Flutningsmenn telja eins og gefur að skilja að það eigi ekki að nota takmarkaða fjármuni í heilbrigðiskerfinu til þess að greiða arð út úr fyrirtækjum sem veita heilbrigðisþjónustu. Eins og hv. þingmenn vafalaust þekkja eru fordæmi til fyrir þessum svokölluðu „non-profit“ fyrirtækjum víða um lönd, bæði austan hafs og vestan.

Það eru fleiri atriði sem koma þarna til, til að mynda það að íslenska heilbrigðiskerfið er býsna stórt og umfangsmikið á íslenskan mælikvarða og veltir mjög miklum fjármunum. Hins vegar er jafn ljóst að á þeim „markaði“ sem við getum sagt að sé þarna er mikill markaðsbrestur vegna þess að staða seljenda og kaupenda er alltaf svo ójöfn. Um þetta hafa fræðimenn ritað lærðar ritgerðir og ég held að í sjálfu sér sé það ekki umdeilt að þarna er staða seljenda og kaupenda ójöfn. Því er ekki í raun hægt að segja að samningar um heilbrigðisþjónustu lúti hvað þjónustuna varðar einhverjum markaðslegum forsendum í hefðbundnum skilningi.

Það eru náttúrlega eins og hv. þingmenn einnig vita í gildi nú þegar margir þjónustusamningar þar sem ekki hefur verið sett inn svona ákvæði. Þess vegna er afar mikilvægt að í lagatextanum sé bráðabirgðaákvæði sem tryggi lúkningu þeirra samninga, að ríkið standi við þá samninga sem það hefur þegar gert, enda er flutningur þessa frumvarps ekki neinn rétttrúnaður á neinn hátt eða nein krossferð, það er fyrst og fremst verið að tryggja að ráðherra hafi þessa heimild.

Það er almenn sátt í samfélaginu um það að heilbrigðisþjónustan eigi að vera í rauninni nokkurs konar almannaréttur, þ.e. það eigi að vera jafnt aðgengi fyrir alla landsmenn að þjónustu og allir landsmenn eigi að geta nýtt sér hana. Það er líka ágætissátt um það í samfélaginu að hún eigi að vera í opinberum rekstri að stærstum hluta til. Þannig kemur til að mynda fram í könnun sem BSRB lét gera árið 2015 að ríflega 80%, 83%, landsmanna töldu að sjúkrahús ættu fyrst og fremst að vera í opinberum rekstri, heilsugæslustöðvar voru með rúm 77%, hjúkrunarheimili 65%, tannlækningar barna einnig o.s.frv.

Í könnuninni kom einnig fram, og það er mikilvægt að halda því til haga, að landsmenn sjá í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það að hluti heilbrigðisþjónustunnar sé í einkarekstri, enda fjallar frumvarpið náttúrlega ekkert um það, (Gripið fram í.) það fjallar alls ekki um það, vegna þess að eftir sem áður yrðu væntanlega áfram til einkaaðilar sem vildu sinna heilbrigðisþjónustu með samningum við ríkið. Það er ekkert athugavert við það. Það er ekki einu sinni neitt athugavert við það að þessir sömu heilbrigðisstarfsmenn sem vinna eftir slíkum samningum geti borgað sjálfum sér sæmileg laun. Það er ekki einu sinni neitt athugavert við það að það myndist einhver, við getum kallað það hagnað, af þessum fyrirtækjarekstri, en „non-profit“ gengur út á það að þeim hagnaði sé beint inn í fyrirtækið til þess að tryggja að það haldi áfram að vaxa og dafna og honum sé frekar beint í þá átt að bæta kjör þeirra starfsmanna sem þar kunna að vinna, bæta þá aðstöðu sem starfsmennirnir kunna að vinna við eða bæta þá þjónustu sem fyrirtækið veitir. Þarna er munurinn.

Ég hef náttúrlega sjálfur starfað í heilbrigðiskerfinu í mörg ár, bæði í þessum svokölluðu „non-profit“ og „for-profit“ fyrirtækjum — fyrirgefðu, forseti, en þetta eru hugtök sem ég mun væntanlega nota í ræðunni áfram, en eiga við hagnað og ekki hagnað til skýringar. Þau eru úti um allt. Það er fullt af þessum svokölluðu ekki hagnaðarfyrirtækjum í íslenskum heilbrigðisrekstri. Hv. þingmenn þekkja sjúkrastofnanir eins og sjúkrastofnun SÁÁ, hjúkrunarheimilið Hrafnistu o.s.frv. Það eru fjölmörg svona fyrirtæki, en það eru líka fyrirtæki sem eru rekin án þess að vera skilgreind sem „non-profit“ eða ekki hagnaðar, en eru það samt í raun, en hafa ekki haft fyrir því að skilgreina sig sem slík.

Það skiptir dálítið miklu máli hvernig munurinn er. Ég hef ekki fundið fyrir því að það sé eitthvert ákall úti í samfélaginu eftir því að ríkið sé að borga arð eða standa undir arðgreiðslum í heilbrigðisþjónustunni. Ég hef alla vega ekki heyrt það. Ég hef hins vegar heyrt þau sjónarmið sem m.a. hafa heyrst í þessum þingsal og úti í samfélaginu að það sé sjálfsagt að ríkið taki þátt í rekstri þessara sömu einkafyrirtækja með þjónustusamningum. Ég hef ekkert á móti því. Það er fullkomlega eðlilegt.

Ég tel að með því að ráðherra hafi þessa heimild sé m.a. hægt að tryggja betri nýtingu þeirra takmörkuðu fjármuna sem eru fyrir hendi. Hugsið ykkur, hv. þingmenn, ef við ætluðum að heimila það eða ef við ætluðum að halda okkur við að það væri bara sjálfsagt mál að arðsemiskrafa væri sett inn í heilbrigðisþjónustusamninga, hvar ættum við þá að draga mörkin? 1%? 2%? 3, 5, 10? Eða eigum við kannski ekkert að draga neina línu? Á okkur bara að vera slétt sama um það hvernig samninga ríkið gerir um þjónustu sem ég held að við séum öll sammála um að allir eigi sama aðgang að?

Værum við t.d. alveg dús við að 10% arðsemiskrafa væri innbyggð í þjónustu SÁÁ? Þætti okkur þeim fjármunum vel varið? Ég held ekki. Ég held að við vildum miklu frekar að SÁÁ gæti sinnt 10% fleiri skjólstæðingum. Það er a.m.k. mitt mat.

Það er mikilvægt að það komi fram og ég mun ítreka það oft bæði í þessari umræðu og annars staðar að við erum að tala um heimild, við erum að tala um að skýra lagatextann hvað þetta varðar, að það sé raunverulega heimilt. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að a.m.k. einn heilbrigðisráðherra hefur þegar beitt ákvæði sem er svona loðið í lögunum, þ.e. hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson. Þess vegna er mjög mikilvægt að við höldum umræðunni á því plani, skulum við segja, að við séum að tala um það sem frumvarpið raunverulega snýst um.

Menn hafa í þessum þingsal haldið því fram, a.m.k. óbeint, að Vinstri græn vildu banna allan einkarekstur, Vinstri græn væru á móti einkarekstri í heilbrigðiskerfi, að Vinstri græn væru fjandmenn allra þeirra sem vildu hafa sæmileg laun o.s.frv. Ég ítreka að það er alrangt. En við sjáum ekki sem stjórnmálahreyfing ástæðu til þess að ríkið standi undir arðgreiðslum í heilbrigðisþjónustufyrirtækjum. Það er tilgangur okkar með þessu frumvarpi að ráðherra hafi þessa heimild og að hún sé skýr. Það er hins vegar engin krafa um að ráðherra beiti henni í hvert einasta skipti sem hann gerir þetta. Það kunna að koma upp tilvik þar sem það er ekki einu sinni hægt. Það er algjörlega klárt. Það eru fyrirtæki á markaði sem veita nauðsynlega þjónustu og eru kannski einu fyrirtækin á markaðnum sem veita slíka þjónustu og eru hagnaðardrifin. Þá væri beinlínis kjánalegt að setja inn í lög að ekki mætti semja við slík fyrirtæki. Það væri kjánalegt. En það er heldur ekki það sem við erum að fara fram á.

Ég hlakka til að eiga orðastað við þingmenn um þetta mál.