149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[18:55]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þingmanns, að það er fjöldinn allur af dæmum um að einkaaðilar, bæði félagasamtök og einstaklingar, hafi fjárfest í heilbrigðisþjónustu og veiti góða þjónustu. Við þingmaðurinn erum algjörlega sammála um að þeir þjónustuaðilar séu mjög mikilvægur þáttur í okkar heilbrigðiskerfi. Það er heldur enginn að tala um að þessir aðilar geti ekki haldið áfram að fjárfesta í sínum fyrirtækjum og geti ekki haldið áfram að reikna fjárfestingarkostnað inn í þá samninga sem þeir gera. Munurinn sem við erum að tala um snýr að því að þeir geti ekki tekið arð út úr fyrirtækjunum, að þeir geti ekki reiknað arðsemiskröfu út úr fyrirtækjunum og tekið þann arð út og í rauninni látið ríkið fjármagna ábata sem þeir taka síðan frá.

Mér finnst svolítið mikið grundvallaratriði að þegar fyrirtæki eru vel rekin og þegar vel gengur hafa þau væntanlega tækifæri til að gera betur við starfsmenn sína, bæta aðstöðuna, hækka laun, auka þjónustu o.s.frv. Það er grundvallarhugmyndin í þessu. Það hefur ekkert með það að gera hvort menn standi í einhverjum erfiðum fjárfestingum. Í einkarekstri verða menn náttúrlega sjálfir að bera ábyrgð á sínum ákvörðunum, þeir verða sjálfir að bera ábyrgð á þeim samningum sem þeir gera. (HKF: Það er …) Ef þeir eru svo óheppnir að gera samninga sem þeir tapa á endanum á er náttúrlega eðli einkarekstrar að menn verða þá bara að sætta sig við það og væntanlega (Gripið fram í.) verða þeir þá að ganga á eigið fé eða höfuðstól fyrirtækisins eins og gert er í venjulegum fyrirtækjarekstri. Menn mega ekki líta á þetta þannig að bara vegna þess að þeir geri samninga við ríkið eigi þeir að vera stikkfrí frá aðhaldi í rekstri og að passa upp á að hlutirnir gangi hjá sér. (Forseti hringir.) Það er ekki þannig.