149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[19:00]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni andsvarið. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ríkið kaupir vörur og þjónustu af mörgum aðilum. En munurinn á heilbrigðisþjónustu og margri annarri þjónustu er að hún er eðlislægt öðruvísi. Þingmaðurinn þekkir það til að mynda í mörgum alþjóðlegum viðskiptasamningum að það er algengt að heilbrigðisþjónusta sé tekin út fyrir sviga hreinlega vegna þess að hún er eðlislægt öðruvísi en önnur þjónusta. Þess vegna lítum við aðeins öðruvísi á hana. Þess vegna erum við til að mynda með sérstakt kerfi hér á Íslandi um greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu sem við teljum ekki vera þörf fyrir hvað varðar marga aðra þjónustu sem ríkið kaupir. Það er ekki af tilviljun.

Þingmenn hengja sig mjög á það að við viljum banna arðgreiðslur, viljum banna hagnað í heilbrigðisþjónustu eða heilbrigðisþjónustufyrirtækjum. Nei, við erum ekkert að banna það og höfum engan áhuga á að banna það. Hins vegar viljum við að þeir samningar sem ríkið gerir um þjónustu við þessa aðila sé ekki andlag arðgreiðslna eða hagnaðar. Þar er munurinn. Vilji heilbrigðisþjónustufyrirtæki eða heilbrigðisþjónustuaðili vera í hagnaðardrifnum rekstri og ekki gera samninga við ríkið getur enginn bannað það. En þetta snýr að samningunum um þjónustuna og arðsemi af þeim.

Varðandi aðrar heilbrigðisstéttir sem hv. þingmaður kom aðeins inn á: Eins og þingmaðurinn áttar sig væntanlega á getur það alveg eins átt við um þær, t.d. tannlækna, sjúkraþjálfara og fleiri sem standa í sambærilegum rekstri, en það verður að vera mat ráðherra og ráðuneytisins og Sjúkratrygginga væntanlega á hverjum tíma hvort ástæða sé til að beita ákvæðinu.